Stelpukvöld og kökuskreytingarEldri dóttir mín er í 6.bekk í Varmárskóla og á föstudegi fyrir nokkrum vikum buðum við stelpunum í bekknum heim í smá kósýkvöld. Þær hittust og borðuðu saman kvöldmat og Harpa Karin var búin að útbúa fyrir þær kökupinna í eftirrétt, setja gotterí í skálar ásamt því sem þær fóru í pakkaleik og fengu súkkulaðisjeik í lok kvölds.

Aðalspennan var þó fyrir kökuskreytingunum sem þetta kvöld snerist að stóru leyti um. Við vorum búnar að baka einfaldan kökubotn fyrir hverja og eina og útbúa nóg af bleiku smjörkremi. Ég var síðan með „mini-útfærslu“ af kökuskreytingarkennslu þar sem ég kenndi þeim að sprauta rósir og því næst fékk hver og ein að skreyta sína eigin köku og fara með heim.

Stelpurnar stóðu sig frábærlega og er alltaf gaman að kenna yngri kynslóðinni kökuskreytingar því þessir krakkar eru svo móttækilegir og finnst þetta ekki vera neitt til að mikla fyrir sér!

Síðla kvölds kom litla systir heim og nóg var um að vera í eldhúsinu svo hún vildi auðvitað taka þátt í gleðinni. Við áttum aukabotn svo þessi litla skotta sem er 5 ára fékk sína eigin köku til að skreyta og fannst það aldeilis frábært. Hún hafði sinn háttinn á þessu öllu saman en stóð sig engu að síður ótrúlega vel enda verður að viðurkennast að starfsfþjálfun í kökuskreytingum hefst nokkuð snemma á þessu heimili.

Stelpurnar fóru síðan allar stoltar heim með með kökuna sína og vorum við sammála um að þetta kvöld hefði heppnast mjög vel og nauðsynlegt að endurtaka leikinn síðar.

Hér sést hversu vel stelpurnar stóðu sig, greinilega vandvirkar og metnaðarfullar stelpur hér á ferð!

3 Replies to “Stelpukvöld og kökuskreytingar”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun