Bollakökurnar
1 pakki súkkulaði kökumix (Betty Crocker Devils þykir mér best en ekki fara eftir leiðbeiningunum á pakkanum)
1 pakki Royal súkkulaðibúðingur
4 egg
½ bolli matarolía (ljós/bragðlítil)
½ bolli mjólk
1 bolli hrein jógúrt
Karamellukremið
1 bolli smjör
2 bollar púðursykur
2/3 bolli rjómi
½ tsk salt
3-4 bollar sigtaður flórsykur
20 saltkringlur til skrauts
Aðferð
1. Karamellukrem
Bræðið smjör í potti á lágum hita. Þegar það er bráðið, bætið púðursykri og rjóma útí. Hrærið stanslaust yfir meðalhita þar til sykurinn er alveg uppleystur, bætið þá saltinu útí. Hækkið hitann og leyfið að sjóða (bubbla) í nákvæmlega 2 mínútur. Takið af hitanum og kælið niður (geymið smá af karamellunni til hliðar til skrauts). Þegar karamellan hefur kólnað vel niður (má vera örlítið volg) hrærið þá flórsykrinum samanvið, setjið þó aðeins 1 bolla í einu og hægt er að ákvarða þykktina á kreminu með magn flórsykursins. Setjið því minna ef þið viljið kremið þynnra til að smyrja á kökurnar, meira ef þið viljið setja í poka og sprauta á kökurnar.
2. Bollakökur
Setjið egg, matarolíu, mjólk og hreina jógúrt í skál og hellið kökumixinu útí. Skafið niður á milli og hrærið á meðalhraða í um 2-3 mínútur. Bætið búðingnum (duftinu) útí og hrærið saman við í lokin. Bakið í 180 gráðum í um 15-20 mínútur, skiptið niður í 16-20 bollakökur, munið að setja pappaform í álform og gott er að hella deiginu úr könnu eða stórum zip-lock poka (klippið gat á eitt hornið).
Leyfið bollakökunum að kólna alveg áður en kremið er sett á.
Ef þið viljið ekki nota kökumix er að sjálfsögðu hægt að notast við hvaða súkkulaðikökuuppskrift sem er.
3. Skreytið
Ef þið viljið hafa kremið í þynnri kantinum þá er hægt að smyrja því á með skeið og strá svo örlitlu af afgangs-karamellubráðinni þar yfir.
Ef þið viljið sprauta kreminu á er t.d hægt að notast við stút 1M frá Wilton og útbúa snúning líkt og myndin sýnir eða annað sem ykkur þykir fallegt. Stráið því næst karamellubráð yfir kremið og stingið einni saltkringlu í hverja köku.