Hefðbundin KitKat kakaKakan

 • 3 bollar púðursykur
 • 1 bolli mjúkt smjör
 • 4 egg
 • 2 tsk vanilludropar
 • 2 2/3 bolli hveiti
 • ¾ bolli bökunarkakó
 • 1 msk matarsódi
 • ½ tsk salt
 • 1 1/3 bolli sýrður rjómi
 • 1 1/3 bolli sjóðandi vatn

Hitið ofninn 180 gráður. Setjið sykur og smjör í hrærivélina og hrærið saman. Bætið eggjunum í skálina, einu í einu og skafið niður á milli og hrærið þar til létt og ljóst. Setjið því næst vanilludropana útí. Setjið hveiti, kakó, matarsóda og salt í skál og bætið útí skálina til skiptis við sýrða rjómann. Hrærið á lágum hraða þar til vel blandað. Að lokum er vatninu blandað saman við og skafið niður á milli þar til allt er slétt og fínt.

Smyrjið þrjú 9 „inch“ (um 22-23cm) kökuform og skiptið deiginu jafnt á milli í formin. Bakið í um 35 mínútur eða þar til prjóni sem stungið er í kökuna kemur hreinn út. (Að þessu sinni skipti ég deiginu í 2 aðeins stærri form (um 28cm) og tók botnana síðan í sundur og var því með 4 þynnri botna svo ef þið eigið ekki minni form má vel gera það). Jafnið alla botnana þegar þeir hafa kólnað (gert með hníf, tvinna eða sérstökum kökuskera sem hannaður er til að jafna hæð botna).

Ath! Hér er einnig hægt að notast við 2 pakka af kökumixi (það gefur jafn mikið deig og þessi uppskrift)

Kremið

 • 250gr mjúkt smjör
 • 1kg flórsykur
 • 2 egg
 • 4 tsk vanilludropar
 • 4 msk sýróp
 • 6msk kakó
 • ½ krukka af Smuckers þykkri súkkulaðisósu (í lagi að nota aðra tegund og það má líka sleppa þessu og nota aðeins allt ofangreint, þetta mýkir kremið aðeins upp og gefur gott auka súkkulaðibragð)

Samsetning

 • 20-25 KitKat stykki
 • 3 x 180gr M&M pokar (eða um 500gr)
 • Borði

Smyrjið kremi á milli allra botnanna og setjið þá saman (mismikið eftir því hvort þið eruð með 3 eða 4 botna). Mælið botnana með KitKat stykki og reynið að hafa krem & botna nægilega hátt til að aðeins um 1cm vanti uppá að samsett kakan sé jafn há og stykkið. Skerið KitKat stykkin til helmina og snyrtið svo 2 og 2 séu alveg slétt því þá raðast þau betur saman. Smyrjið kremi ofaná kökuna og á hliðarnar og þrýstið strax KitKat á hliðarnar og látið öll stykkin snúa eins. Hafið nóg en ekki of mikið af kremi á hliðunum, þið viljið að stykkin festist í því en leki ekki til. Þegar búið er að raða KitKat allan hringinn er hægt að segja þetta gott því þau geta alveg staðið í kreminu einu saman. Hins vegar þykir mér fallegt að velja borða í þeim lit sem hentar og setja hringinn og binda svo slaufu. Að lokum er M&M hellt ofan á kökuna þannig að ekkert sjáist í kremið og til að fylla alveg upp að KitKat brúninni.

Ath! Hægt er að nota annað sælgæti en M&M til að hella ofaní. Notið þann lit eða gerð sem ykkur þykir henta og þá er líka hægt að velja borða í stíl við það (t.d allt bleikt, gult eða slíkt)

 

One Reply to “Hefðbundin KitKat kaka”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun