Það styttist í helgina og ég bara verð að mæla með því að þið bakið þessa snúða með kaffinu. Þeir eru einfaldir og svo góðir. Þrátt fyrir að ein uppskrift gefi rúmlega 50 snúða þá hverfa þeir alltaf eins og dögg fyrir sólu og ég sé alltaf eftir því að hafa ekki gert tvöfalda uppskrift. Ef þið ætlið hins vegar að gerast svo djörf þá þarf það að vera gert í sitthvorri umferðinni því annars myndi hrærivélaskálin yfirfyllast 🙂
Snúðarnir uppskrift
- 5 dl ylvogl mjólk
- 1 pk þurrger
- 12-13 dl hveiti
- 1 ½ dl sykur
- 1 tsk salt
- 150 gr smjör
Fyllingin
- 3-4 dl sykur
- 5 msk kanill
- 120-150 gr brætt smjör
- 1 egg
Blandið gerinu saman við ylvolga mjólkina. Varist að hita hana of mikið og oft er gott að hella henni í annað ílát en pottinn þegar hún er tilbúin til að hún eigi ekki í hættu að hitna of mikið, leyfið gerinu að leysast alveg upp.
Blandið þurrefnunum saman í skál og skerið smjörið í þunnar sneiðar og blandið samanvið. Hellið gerblöndunni útí og hrærið með „króknum“ eða einfaldlega í höndunum þar til vel blandað. Athugið að deigið er frekar lint í sér en á þó ekki að festast við fingurna þegar hnoðað er (ef svo er, bætið örlítið meira hveiti samanvið). Setjið rakan klút á skálina og látið hefast í um klukkustund.
Skiptið deiginu niður í 3 hluta og fletjið einn út í einu, smyrjið vel af smjöri og stráið vel af kanilsykri yfir. Rúllið þétt og skerið í um 2cm þykkar sneiðar, raðið á bökunarpappír og leyfið að hefast aftur í um 30 mínútur. Penslið með eggi og bakið í 225 gráðu heitum ofni í 5-8 mínútur.
Takk fyrir. Nu er leitinni ad uppahalds snudunum loksins lokid. 🙂
Gott að heyra, þessir eru alltaf jafn vinsælir á þessu heimili – mæli samt algjörlega með því að þú prófir líka „Himnesku kanelsnúðana“ þeir eru svona USA style kanelsnúðar 🙂