Súkkulaði bananakaka með karamellubráð



Það eru margir vina minna búnir að bíða eftir þessari uppskrift síðan ég setti hana á Instagram fyrir einhverju síðan. Ég er búin að lauma henni til nokkurra og nú er hún komin hingað fyrir ykkur að prófa.

Ég hef í seinni tíð lært að meta banana í bakstri betur og betur og ég verð að segja að þessi bananakaka er eitt það dásamlegasta sem ég hef bakað að undanförnu. Hún er blaut í sér, bragðmikil og Dumle-karamellubráðin toppar hana síðan algjörlega.

Það er því um að gera næst þegar þið eigið vel þroskaða banana að skella í þessa guðdómlegu köku. Held meira að segja það sé hægt að kaupa annars flokks banana í matvöruverslunum ef þið eigið þá ekki til  heima. Uppskriftina af kökunni sjálfri fann ég á Smitten Kitchen og breytti örlítið ásamt því sem karamellubráðin var viðbót sem þið viljið alls ekki sleppa!

Kakan sjálf

  • 3 vel þroskaðir bananar
  • 120gr brætt smjör
  • 150gr Dansukker púðursykur
  • 1 egg
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 tsk matarsódi
  • ½ tsk salt
  • 120gr hveiti
  • 80gr bökunarkakó
  • 150gr súkkulaðidropar (gróft saxað suðusúkkulaði)

Karamellubráðin

  • 20 stk dökkar Dumle karamellur (um 1,5 poki)
  • 3 msk rjómi

Aðferð

  1. Hitið ofninn 175 gráður.
  2. Spreyið matarolíuspreyti í formkökuform (brauðform) og leggið til hliðar.
  3. Stappið bananana og setjið í hrærivélarskálina.
  4. Bætið bræddu smjöri, eggi, púðursykri og vanilludropum saman við.
  5. Hrærið þurrefnin saman og blandið varlega saman við.
  6. Hellið að lokum súkkulaðidropunum í blönduna og blandið með sleif.
  7. Setjið í formið og bakið í um 40-50 mínútur (fer eftir breidd formsins, minna og breiðara = lengri tími, grennra og lengra = styttri tími)
  8. Útbúið karamellubráðina á meðan kakan kólnar.
  9. Bræðið karamellur og rjóma saman yfir meðalhita þar til karamellur eru uppleystar, takið af hellunni og leyfið að kólna um stund.
  10. Dreifið þykkri karamellubráðinni yfir kökuna og berið fram. Þessi kaka er guðdómleg þegar hún er enn volg með ískaldri mjólk

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í Nettó

Tags:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun