Baileys toppar



Í síðustu viku hittumst við Íris vinkona og Heiða mágkona í sörugerð. Við gerðum þrefalda uppskrift af sörunum góðu og ákváðum að bæta við Baileys 1/3 af kreminu og verð ég að segja að sú tilraun verður endurtekin að ári. Þetta er skemmtileg tilbreyting frá hinum hefðbundnu og hvet ég ykkur til að prófa ykkur áfram með eitthvað bragðbætandi í kremið.

Baileys toppar

  • 260gr möndlumjöl
  • 220gr flórsykur
  • 4 eggjahvítur
  1. Hitið ofnin 180°C (aðeins undir og yfirhita, ekki blástur)
  2. Blandið flórsykri og möndlumjöli saman þar til engir kekkir eru eftir.
  3. Stífþeytið eggjahvítur þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess þær leki úr.
  4. Blandið möndlu- og flórsykursblöndunni varlega saman við eggjahvíturnar með sleif.
  5. Setjið á bökunarplötu íklædda bökunarpappír með teskeið eða í sprautupoka. Gott er að miða við kúfaða teskeið fyrir hverja köku þó svo stærðin sé smekksatriði.
  6. Bakið í um 12-14 mínútur eða þar til kökurnar eru orðnar gylltar.

Kremið

  • 4 eggjarauður
  • 6 msk sýróp
  • 240gr smjör við stofuhita
  • 3 msk bökunarkakó
  • 2 tsk kaffi
  • 4 msk Baileys
  1. Stífþeytið eggjarauðurnar þar til þær eru þykkar og gulleitar.
  2. Velgið sýrópið á meðan og hellið síðan útí þeyttar rauðurnar og þeytið áfram.
  3. Blandið smjörinu saman við blönduna og þeytið áfram vel þar til vel blandað.
  4. Að lokum fer kakóið, kaffið og Baileys saman við blönduna og þeytt áfram þar til létt og ljóst.
  5. Gott er að miða við góða teskeið af kremi á hverja blöndu og hægt að setja það á með hníf eða sprautupoka. Gott er að setja magnið á miðjuna og draga svo niður að hliðunum til að mynda  nokkurs konar topp með kreminu. Athugið einnig að smyrja kreminu á sléttu hliðina!
  6. Setjið kökurnar í frysti jafnóðum á meðan þið smyrjið og þá verða þær tilbúnar til dýfingar þegar þið eruð búin að setja krem á allar.

Hjúpur

  • Um 300gr af dökku súkkulaði
  1. Bræðið súkkulaðið í lítilli djúpri skál í örbylgjuofni eða vatnsbaði. Ef örbylgjuofninn er notaður er gott að hita súkkulaðið í 20-30 sekúndur í einu og hræra á milli.
  2. Takið um 3-5 kökur úr frystinum í einu og dýfið í súkkulaðihjúpinn. Reynið að ná taki á kökunni fyrir neðan kremið og dýfið nægilega djúpt til að súkkulaðið snerti kökuna sjálfa allan hringinn og kremið verði þannig þakið hjúp.
  3. Leyfið súkkulaðinu að storkna og geymið svo í frysti/kæli og berið fram eftir hentugleika.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun