Á föstudagskvöldið hittumst við Íris vinkona, ýttum jólastressinu til hliðar og dunduðum okkur við sörugerð.
Ég verð að viðurkenna að ég hef aðeins einu sinni áður útbúið sörur og það var líklega fyrir um 10 árum svo taktana þurfti að rifja upp. Við gerðum tvöfalda uppskrift og hrærðum í hana með örlítið mismunandi hætti og hér fyrir neðan er sú útfærsla sem okkur fannst heppnast betur. Við erum þó staðráðnar í því að halda áfram að þróa þessa uppskrift að ári. Við vorum hins vegar svo uppteknar af blaðri og af því að finna skemmtileg jólalög að hlusta á að myndataka af ferlinu fór forgörðum en vonandi dugar lýsingin og ég lofa að standa mig betur í myndatökunni að ári.
Þrátt fyrir að ferlið hafi ekki verið myndað nægilega vel tók ég að sjálfsögðu myndir af lokaútgáfunni og hér sjáið þið hana í máli og myndum með fallegu borðskreytingunni minni frá Pier. Ég hreinlega elska þessa náttúruliti, hreindýrin og svo setja fallegu hekluðu krukkurnar frá Guðrúnu mömmu hennar Ragnheiðar vinkonu punktinn yfir I-ið. Ef þið hafið séð nýjasta Hús&Hýbýli þá getið þið séð skreytinguna í öllu sínu veldi ásamt krúttlegu hnotubrjótunum sem ég keypti í sömu ferð ásamt girnilegri uppskrift af karamelluköku.
Ég verð að viðurkenna að ég kaupi alltaf eitthvað nýtt jólakskraut í Pier á hverju ári og í gær fór ég á jólagjafaflakk og mér til mikillar gleði var kominn 40% afsláttur af öllu jólaskrauti þar og laumuðust nokkrar nýjar kúlur á tréð með í pokann.
Jæja, aftur að kökunum, hér kemur uppskriftin!
Sörur
- 260gr möndlumjöl (eða afhýddar möndlur settar í mixer)
- 220gr flórsykur
- 4 eggjahvítur
- Hitið ofnin 180°C (ekki blástur, aðeins undir og yfir hita)
- Hakkið möndlur í blandara/matvinnsluvél þar til þær eru orðnar að mjöli ef þið eruð ekki með tilbúið möndlumjöl. Mér finnst oft betra að nota tilbúið mjöl því það er eins og kökurnar nái að verða þykkari með því og þannig eru þær svo fallegar.
- Blandið flórsykri og möndlumjöli saman þar til engir kekkir eru eftir.
- Stífþeytið eggjahvítur þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess þær leki úr.
- Blandið möndlu- og flórsykursblöndunni varlega saman við eggjahvíturnar með sleif.
- Setjið á bökunarplötu íklædda bökunarpappír með teskeið eða í sprautupoka. Gott er að miða við kúfaða teskeið fyrir hverja köku þó svo stærðin sé smekksatriði. Um 40-50 kökur koma úr einni uppskrift.
- Bakið í um 15-20 mínútur eða þar til kökurnar eru orðnar gylltar.
Kremið
- 4 eggjarauður
- 6 msk sýróp
- 260gr smjör við stofuhita
- 3 msk bökunarkakó
- 2 tsk kaffi
- Stífþeytið eggjarauðurnar þar til þær eru þykkar og gulleitar.
- Velgið sýrópið á meðan og hellið varlega útí þeyttar rauðurnar og þeytið áfram.
- Blandið smjörinu saman við blönduna og þeytið áfram þar til vel blandað.
- Að lokum fer kakóið og kaffið saman við blönduna og þeytt áfram þar til létt og ljóst.
- Gott er að miða við góða teskeið af kremi á hverja köku og hægt að setja það á með hníf eða sprautupoka. Gott er að setja magnið á miðjuna og draga svo niður að hliðunum til að mynda nokkurs konar topp með kreminu. Athugið einnig að smyrja kreminu á sléttu hliðina!
- Setjið kökurnar í frysti jafnóðum á meðan þið smyrjið og þá verða þær tilbúnar til dýfingar þegar þið eruð búin að setja krem á allar.
Hjúpur
- Um 300gr af dökku súkkulaði
- Bræðið súkkulaðið í lítilli djúpri skál í örbylgjuofni eða vatnsbaði. Ef örbylgjuofninn er notaður er gott að hita súkkulaðið í 20-30 sekúndur í einu og hræra á milli.
- Takið um 3-5 kökur úr frystinum í einu og dýfið í súkkulaðihjúpinn. Reynið að ná taki á kökunni fyrir neðan kremið og dýfið nægilega djúpt til að súkkulaðið snerti kökuna sjálfa allan hringinn og kremið verði þannig þakið hjúp.
- Leyfið súkkulaðinu að storkna og geymið svo í frysti/kæli og berið fram eftir hentugleika.
2 Replies to “Sörur”