Ástarhringurinn hennar ömmuKaramellukaka

Karamellukaka

Elsku amma Guðrún heitin bakaði þessa köku ansi reglulega í minni barnæsku. Alltaf var hún tilbúin að hræra í hvað sem er eftir pöntun og stjanaði í kringum okkur systurnar en það sýnir bara hversu dásamleg hún var.

Hvort sem við óskuðum eftir lambahrygg, kjöt og karrý, hakk og spagetti, jólaköku, snúðum, pönnukökum, marmaraköku já eða ástarhring þá var allt látið eftir okkur. Síðan var djúpsteiktur fiskur í orly oft á óskalistanum líka og þá rölti hún með manni niður á Svörtu pönnuna og lét þá máltíð rætast.

Caramel cake

Þessi kaka er æðisleg og aldrei lengi að klárast get ég sagt ykkur, svo guðdómlega ljúffeng með þessari karamellubráð.

Karamelluhringur

Ástarhringurinn hennar ömmu Guðrúnar uppskrift

Kakan

 • 250 g smjör (við stofuhita)
 • 250 g sykur
 • 250 g hveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • 4 egg (aðskilin)
 1. Hitið ofninn 175°C
 2. Hrærið saman smjör, sykur, hveiti og lyftidufti.
 3. Blandið rauðunum saman við, einni í einu og skafið niður á milli.
 4. Leggið blönduna til hliðar á meðan þið stífþeytið eggjahvíturnar.
 5. Blandið stífþeyttum eggjahvítum saman við blönduna með sleif.
 6. Setjið í vel smurt hringlaga form og bakið í 30-50 mínútur, eða þar til prjónn kemur hreinn út (bökunartími fer eftir þykkt hringsins sem bakað er í og ef um stórt/breitt form er að ræða er gott að gera 1 ½ uppskrift).

Deigið er vel þykkt og stífþeyttu eggjahvíturnar lina það aðeins upp en þó er það áfram þykkt þegar það er sett í formið. Gott er að skera aðeins ofan af kökunni ef hún hefur lyft sér þannig við bakstur svo hún sitji betur á kökudisknum.

Pound cake

Karamellubráð

 • 2 dl rjómi
 • 120 g smjör
 • 1 tsk vanilludropar
 • 50 g sykur
 • 2 msk sýróp
 1. Allt sett í pott og suðan látin koma upp.
 2. Lækkað á meðal/háan hita og hrært stanslaust í þar til þykknar (um 10 mínútur).
 3. Kælið örlitla stund og penslið/smyrjið á kökuna (mér finnst best að byrja á því að pensla fyrsta lagi á frekar þunnu á meðan karamellan er vel heit og leyfa kökunni að drekka hana aðeins í sig og síðan þegar búið er að þekja kökuna alla set ég restina yfir og leyfi að leka aðeins niður með hliðunum).

Þessi kaka verður án efa bökuð aftur hér á næstunni og ekki er verra að bera hana fram með ískaldri mjólk, já eða heitu kakó með rjóma.

Pound cake with caramel

Þið megið endilega fylgja mér á INSTAGRAM og mér finnst gaman ef þið merkið mig þar ef þið eruð að prófa uppskriftir af síðunni.

One Reply to “Ástarhringurinn hennar ömmu”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun