Besta skúffukaka í heimi



sukkuladikaka

Chocolate sheet cake

Stundum þá höfum við ekki alltaf mikinn tíma þegar okkur langar til að baka eitthvað gómsætt. Bekkjarkvöld er í vændum, saumaklúbbur, matarboð eða einhver hringir með stuttum fyrirvara og ætlar að kíkja í kaffi.

Skúffukaka

Betty Crocker Devils Food Cake Mix er eitt af mínum uppáhalds kökumixum og nota ég það óspart ef okkur fjölskylduna langar í gómsæta súkkulaðiköku og höfum ekki mikinn tíma. 

Skúffukaka

Hér fyrir neðan finnið þið útfærslu af Betty Crocker köku með dásamlegum lúxus súkkulaðismjörglassúr sem hægt er að útbúa á nokkrum mínútum þegar kakan hefur verið tekin úr ofninum. Þessi kaka bráðnar í munni og slær alltaf í gegn!

Skúffukaka

  • 1 x Betty Crocker Devils Food Cake Mix
  • 4 egg 
  • 125 ml matarolía
  • 250 ml vatn
  • 4 msk bökunarkakó
  • 1 pakki Royal súkkulaðibúðingur (duftið)

Súkkulaðiglassúr

  • 500 g flórsykur
  • 40 g bökunarkakó
  • 90 g smjör (bráðið)
  • 2 tsk vanilludropar
  • 3 msk kaffi
  • Kókosmjöl til skrauts

Aðferð – kaka

  • Hitið ofninn í 160°C.
  • Hrærið kökumixinu saman við egg, olíu, vatn og bökunarkakó og blandið á meðalhraða í um tvær mínútur. 
  • Þegar deigið er tilbúið er duftinu af Royal búðingnum bætt saman við og blandað saman stutta stund og skafið niður einu sinni á milli.
  • Hellið deiginu í „skúffukökuform“ um 20×30 cm sem spreyjað hefur verið með matarolíuspreyi eða notið ofnskúffu en þá er gott að nota tvöfalda uppskrift nema þið viljið hafa hana í þynnri kantinum þá má nota eina.
  • Bakið í 25-30 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á endanum, ekki blautu deigi.
  • Kælið og útbúið kremið á meðan (kremið er frekar þykkt á 20x30cm en þynnra ef það er notað fyrir heila ofnskúffu, bæði gott).

Aðferð – krem

  • Bræðið smjörið.
  • Setjið öll hráefnin saman í hrærivélarskálina og blandið saman þar til kekkjalaust. Þynnið með smá af volgu vatni ef ykkur þykir of þykkt.
  • Smyrjið jafnt yfir kökuna með spaða og stráið kókosmjöli yfir í lokin. 

Sheet cake

Þessi uppskrift hér er brjálæðislega góð og klárlega uppáhalds kakan okkar allra.  Hulda Sif litla krútt var mjög stillt á meðan mamman tók myndir af kökunni en svo var hún mesta dúllan þegar ég var búin og ég sagði henni nú mætti hún fá sér.

Hér er hún í náttfötunum svo stillt og prúð að bíða þessi elska.

Hún elskar kremið mest af öllu á kökum, borðar það iðulega af og skilur kökurnar eftir. Hún dýfir líka sömu frönskunni ofan í kokteilsósuna nokkrum sinnum án þess að bíta í hana, þessi börn!

4 Replies to “Besta skúffukaka í heimi”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun