Ég er mikið bæði fyrir brownies sem og ostakökur eins og þið hafið eflaust tekið eftir. Að blanda þessu tvennu saman hafði mér hins vegar ekki dottið í hug fyrr en ég var að vafra á veraldarvefnum eitt kvöldið og rakst á hugmynd svipaða þessari.
Ég var ekki lengi að átta mig á því að þetta þyrfti að prófa og við mæðgur útbjuggum þessa dásamlegu köku í eftirrétt eina helgina.
Oreo ostaköku brownies uppskrift
- 120 gr smjör
- 100 gr sykur
- 2 stór egg
- 200 gr rjómaostur við stofuhita (1x askja Philadelphia)
- 90 gr flórsykur
- 2 tsk vanilludropar
- 110 gr hveiti
- 3 msk bökunarkakó
- ½ tsk salt
- 100 gr suðusúkkulaði (bráðið)
- 12 Oreokökur muldar + um 4 í stærri bita til skrauts
Aðferð
- Hitið ofninn 175°C
- Klæðið ferkantað kökuform (um 22×22 cm) með bökunarpappír og spreyið með PAM matarolíuspreyi.
- Bræðið smjör og bætið sykri saman við, leyfið að sjóða í um mínútu og kælið síðan í nokkrar mínútur á meðan annað er undirbúið.
- Þeytið saman rjómaost, flórsykur og vanilludropa þar til létt og setjið til hliðar.
- Þeytið eggin örstutta stund, bætið smjör- og sykurblöndunni saman við og blandið vel.
- Hrærið hveiti, kakó og salti saman og blandið út í eggjablönduna, hellið bræddu súkkulaðinu saman við og skafið vel niður á milli.
- Að lokum fara muldu Oreokökurnar saman við og gott er að vefja þeim við deigið í lokin.
- Setjið helminginn af brownie deiginu í botninn á forminu og sléttið úr.
- Hellið því næst rjómaostablöndunni yfir og sléttið úr.
- Setjið restina af brownie deiginu yfir en nú í litlum skömmtum, skeið hér og þar og takið að lokum prjón og dragið í gegn til að skapa smá marmaraáferð. Myljið 4 Oreokökur gróft og stingið hér og þar.
- Bakið í um 25 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá brúnni kökumylsnu en ekki blautu deigi.
- Kælið alveg, lyftið upp úr forminu og skerið í bita.