Toblerone ostakaka⌑ Samstarf ⌑

Þessi ostakaka er eitthvað annað góð eins og unglingurinn á heimilinu orðaði það!

Ég get nú reyndar alveg tekið undir það því hún var alveg dásamleg á bragðið og svo er hún líka svo falleg til að bera fram. Þegar Oreo, Toblerone, rjómi og hindber koma saman getur líklega lítið klikkað!

Þessa köku er einfalt að útbúa og alls ekki hræðast gelatínið! Ég gerði það í mörg ár því ég hélt það væri svo mikið vesen en það er það ekki og nú er ég til í að setja gelatín í hvað sem er til að ná fram réttri áferð. Það er svo fallegt þegar hægt er að taka ostaköku úr forminu og leyfa henni að njóta sín á kökudisk án þess að hún leki öll til. Hugmyndina fékk ég á heimasíðu Philadelphia ostsins en þar eru margar girnilegar uppskriftir.

Toblerone ostakaka með hindberjakeim

 • 1 pk Oreo kex mulið (16 stk)
 • 70 g brætt smjör
 • 500 g Philadelphia rjómaostur við stofuhita
 • 170 g sykur
 • 1 msk bökunarkakó
 • 3 gelatín blöð (60 ml vatn)
 • 200 g brætt Toblerone + meira til skrauts
 • 1 tsk vanilludropar
 • 250 ml léttþeyttur rjómi
 • 125 g maukuð hindber + meira til skrauts
 1. Blandið saman muldu Oreo kexi og bræddu smjöri, þrýstið í 20cm springform sem búið er að spreyja með matarolíuspreyi og setja bökunarpappír í botninn. Gott er að þrýsta vel í botninn og örlítið upp á kantana. Kælið í að minnsta kosti klukkustund.
 2. Leggið gelatínblöð í kalt vatn í nokkrar mínútur. Setjið 60 ml af vatni í lítinn pott og hitið að suðu, vindið þá gelatínblöðin sem eru í kalda vatninu og hrærið saman við sjóðandi vatnið, einu í einu þar til þau eru öll uppleyst.
 3. Hellið þá yfir í skál og leyfið að ná stofuhita.  
 4. Þeytið rjómaost og sykur þar til vel blandað og bætið þá bökunarkakó saman við og hrærið vel.
 5. Bætið gelatínblöndunni, bræddu Toblerone og vanilludropum saman við rjómaostablönduna og hrærið saman.  
 6. Að lokum er þeytta rjómanum vafið saman við þar til slétt og fín blanda hefur myndast og þá er henni hellt yfir Oreo botninn.
 7. Skvettið hindberjamaukinu óreglulega yfir toppinn og dragið til með hníf og kælið í að minnsta kosti 3 klst eða yfir nótt þar til ostakakan verður stíf.
 8. Losið kökuna þá úr forminu og færið yfir á kökudisk og skreytið með ferskum hindberjum og Toblerone.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun