Gómsæt súkkulaðiterta⌑ Samstarf ⌑

Þessi súkkulaðiterta er með þeim betri sem ég hef prófað og súkkulaði- og kaffikremið á milli var alveg dásamlegt!

Súkkulaðiskraut á köku

Ég var líka að leika mér aðeins með hjúpsúkkulaði varðandi skreytinguna og mér fannst þetta lukkast bara frekar vel verð ég að segja.

Súkkulaðikaka

Ég var að fá nýjan aukahlut fyrir fallegu fallegu hrærivélina mína og verð ég að segja að þetta er ein mesta snilld sem ég hef prófað! Um er að ræða sigti með vigt í sömu græjunni sem skrúfuð er framan á hrærivélina áður en hafist er handa.

Það er aðeins eitt handtak að koma þessu fyrir og drottinn minn hvað það er dásamlegt að geta bara vigtað þurrefnin og síðan látið elsku hrærivélina sjá um að sigta þau út í skálina.

Sjáið þið bara, þetta er svooooo sniðugt! Fyrst er skammtarinn lokaður og maður vigtar allt saman, síðan þegar kveikt er á vélinni og skammtarinn opnaður sigtar vélin þurrefnin í litlum skömmtum út í skálina.

Þetta er í það minnsta frábærlega sniðug græja og var akkúrat kominn tími á eldhúsvigtina mína svo hún er komin til sinna heima og þessi hefur tekið við. Það besta við þessa er síðan að það er hægt að taka hana af og nota sem borðvigt líka. Þið sem hafið áhuga á þessari græju getið nálgast hana í Rafland og þessa dagana er einmitt 3 fyrir 2 af aukahlutum hjá þeim.

Ég bakaði að sjálfsögðu köku í stíl við hrærivélina og hér kemur þessi dásamlega uppskrift.

Súkkulaðiterta uppskrift

Súkkulaðibotnar

 • 375 g hveiti
 • 525 g sykur
 • 90 bökunarkakó
 • 3 tsk lyftiduft
 • 2 ½ tsk matarsódi
 • 1 ½ tsk salt
 • 4 msk sterkt kaffi
 • 300 ml „buttermilk“  (mjólk og  1 tsk af sítrónusafa blandað saman)
 • 150 ml matarolía
 • 3 stór egg
 • 3 tsk vanilludropar
 • 300 ml sjóðandi vatn
 1. Hitið ofninn 190°C
 2. Spreyið 3 x 20cm bökunarform með matarolíu og setja bökunarpappír í botninn.
 3. Sigtið hveiti, sykur, bökunarkakó, lyftiduft og matarsóda í hrærivélarskálina.
 4. Bætið mjólk, olíu, eggjum, kaffi og vanilludropum saman við og blandið á meðalhraða þar til vel blandað.
 5. Lækkið hraðann og hellið sjóðandi vatninu að lokum saman við.
 6. Skiptið jafnt á milli formanna og bakið í 30-35 mínútur og kælið vel.

Súkkulaðikrem á milli

 • 255 g smjör við stofuhita
 • 100 g bökunarkakó
 • 450 g flórsykur
 • 100 ml mjólk
 • 2 tsk vanilludropar
 • 3 msk sterkt kaffi
 1. Setjið smjör í hrærivélarskálina og sigtið kakóið saman við, blandið saman þar til létt og ljóst.
 2. Bætið til skiptis flórsykri og mjólk saman við blönduna, skafið vel á milli og þeytið.
 3. Setjið að lokum vanilludropa og kaffi saman við og blandið vel.
 4. Smyrjið á milli botnanna og hjúpið með þunnu lagi af súkkulaðikreminu.
 5. Kælið kökuna vel eða þar til kremið hefur stífnað vel og útbúið þá litaða kremið fyrir lokahjúpinn.

Smjörkrem til að hjúpa kökuna með

 • 125 g smjör við stofuhita
 • 500 g flórsykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 5 msk mjólk
 • Matarlitur
 1. Þeytið smjörið þar til létt og ljóst.
 2. Bætið flórsykrinum saman við í nokkrum skömmtum ásamt mjólkinni og vanilludropunum.
 3. Litið með þeim matarlit sem þið óskið (ég notaði gráan og bláan í bland í þessu tilfelli).
 4. Hjúpið kökuna með tæplega 1cm þykku lagi af kremi allan hringinn

Skraut

 • Bökunarkakó og vanillludropar fyrir slettur
 • Hjúpsúkkulaði fyrir súkkulaðiskraut
 1. Blandið saman 1 tsk af bökunarkakó við  1 msk af vanilludropum og notið hreinan pensil til að skvetta óreglulega á kökuna.
 2. Súkkulaðiskrautið er síðan búið til úr bræddu hjúpsúkkulaði sem smurt er á bökunarpappír og komið fyrir í litlum skálum/krumpað upp á og látið storkna þannig. Ég notaði síðan fallegustu skálina og braut aðeins af öðrum til að nota með og formaði nokkurs konar súkkulaðiblóm á toppi kökunnar.

Namm hún var svo góð!

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Rafland og Kitchen Aid á Íslandi

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun