Þessa uppskrift sá ég í haust og lét loksins verða af því að prófa hana. Hún er ein af þeim fjölmörgu sem Martha Stewart hefur birt á síðunni sinni. Ég breytti henni örlítið og er þetta í raun afar einföld og fljótleg útfærsla á vanillu ostaköku sem ekki þarf að baka þó svo að hún þurfi að standa í ísskáp dágóðan tíma áður en hún er skreytt. Dásamlegu fallegu og bragðgóðu berin toppa hana síðan og verð ég að segja að þessi kaka á vel við hin ýmsu tilefni og hentar fyrir jafnt unga sem aldna.
Botn
- 1 pk Lu Digestive hafrakex
- 100 gr bráðið smjör
- 2 msk sykur
- ½ tsk salt
Ostakaka
- 270 gr Philadelphia rjómaostur við stofuhita
- 130 gr flórsykur
- 130 gr vanilluskyr
- 2 tsk vanilludropar
- Fræ úr einni vanillustöng
- ¼ tsk salt
- 350 ml stífþeyttur rjómi
Skraut
- Driscoll‘s hindber, jarðaber, bláber og rifsber
- Maukið kexið í matvinnsluvél/blandara.
- Blandið sykri og salti saman við og hellið því næst smjörinu yfir og blandið vel.
- Þrýstið í botninn á um 25cm hringlaga smelluformi (gott að hafa bökunarpappír undir ef þið ætlið að taka kökuna af álbotninum sjálfum).
- Þrýstið um 2-3cm af kexblöndu upp á kantana.
- Þeytið rjómaostinn þar til hann verður léttur í sér.
- Bætið flórsykri, skyri, vanilludropum, vanillufræjum og salti saman við og blandið vel.
- Þeytið rjómann og vefjið honum varlega saman við blönduna.
- Hellið yfir botninn, plastið og kælið yfir nótt (amk 8 klst).
- Skreytið með berjum og berið fram.