Hér er á ferðinni dásamlega góð ostakaka með Hrekkjavökuívafi sem ég útbjó fyrir Gott í matinn!
Hrekkjavöku ostakaka uppskrift
Botn
- 308 gr mulið Oreo (2x 154 gr pakki)
- 120 gr smjör
- ½ tsk salt
- 1 tsk vanillusykur
Ostakakan sjálf
- 500 gr rjómaostur til matargerðar frá Gott í matinn (við stofuhita)
- 90 gr sykur
- 1 tsk vanillusykur
- 4 gelatínblöð
- 60 ml sjóðandi vatn (til að leysa upp gelatínið)
- 400 ml þeyttur rjómi
- 3 x Mars súkkulaðistykki, skorin í smáa bita
Súkkulaði ganaché
- 40 gr suðusúkkulaði (smátt saxað)
- 2 msk rjómi
Aðferð
- Byrjið á botninum. Blandið saman muldu Oreo, salti, vanillusykri og bræddu smjöri. Klæðið botn (og hliðar ef vill) á 20-22 cm springformi með bökunarpappír og þjappið blöndunni á botninn og aðeins upp hliðarnar. Setjið í kæli á meðan kakan sjálf er útbúin.
- Leggið gelatínblöð í kalt vatn í um 10 mínútur, kreistið þá vatnið úr og setjið í sjóðandi vatn (60ml). Hrærið vel saman og tryggið að blandan sé uppleyst og leyfið því næst að ná stofuhita.
- Þeytið rjómann og geymið.
- Þeytið því næst saman rjómaost, sykur og vanillusykur þar til létt og ljóst.
- Hellið gelatínblöndunni saman við rjómaostablöndunni þegar hún hefur kólnað niður og vefjið síðan rjómanum saman við með sleikju.
- Útbúið ganaché: hitið rjómann að suðu og hellið yfir smátt saxað súkkulaðið, leyfið að standa í 2 mínútur og hrærið svo saman. Leyfið að kólna aðeins þar til það fer að þykkna og setjið þá í sprautupoka/klippið lítið gat á zip lock poka til að sprauta köngulóarvefinn á þegar búið er að setja kökuna saman.
- Skiptið ostakökublöndunni í tvo hluta og hrærið Mars bitunum saman við annan hlutann.
- Hellið fyrst hlutanum með Mars bitunum á botninn og því næst hvíta hlutanum og sléttið vel úr í forminu.
- Sprautið ganaché á miðjuna og svo í hringi með um það bil 1,5 cm á milli. Dragið þá prjón í gegn frá miðjunni og myndið þannig köngulóarvef.
- Kælið í að minnsta kosti 4 klst eða yfir nótt og losið þá úr forminu og færið yfir á disk.