Ég hef lengi gengið með þá hugmynd í maganum að útbúa sérstakan uppskriftarflokk fyrir „partýrétti“ sem sniðugir eru í ýmsar veislur. Þegar ég hef haldið veislur hef ég einbeitt mér að því að skrifa um kökurnar og kökuskreytingarnar en nú hef ég loksins látið verða að því að beina myndavélinni víðar svo hér munu fleiri skemmtilegir réttir detta inn á næstunni.
Þessi uppskrift kemur frá Þórunni vinkonu minni og eru bráðum tuttugu ár síðan hún kynnti mig fyrir þessari dásamlegu uppskrift og verð ég að segja að hún er frábærlega fersk og góð og erfitt að hætta þegar maður byrjar!
Þessa færslu útbjó ég fyrir Gott í matinn á dögunum og var við það að gleyma að setja hana hingað inn en hvet ykkur nú til þess að bjóða upp á þessa dásemd í næstu veislu eða bara fyrir fjölskylduna eða vinina um helgina!
Nachosdýfa uppskrift
- 1 lítil krukka salsasósa (medium)
- 1 dós rjómaostur (við stofuhita)
- 1 rauðlaukur
- Iceberg (c.a ¼ haus eftir stærð)
- 1 x rauð paprika
- ½ púrrulaukur
- Nokkrir sveppir (c.a 8 stk)
- Mini tómatar og nokkrir hringir af blaðlauk til skrauts
- Nachos (saltað/venjulegt finnst mér passa best og hringlóttu flögurnar frá Santa Maria henta vel)
- Setjið salsasósu og rjómaost í hrærivélarskálina og blandið þar til kekkjalaust og létt í sér.
- Saxið rauðlauk mjög smátt og dreifið í botninn á þeirri skál/fati/bakka sem verður fyrir valinu.
- Smyrjið rjómaostblöndunni yfir rauðlaukinn.
- Saxið grænmetið smátt (nema tómata) og dreifið yfir blönduna (að sjálfsögðu má nota annað grænmeti, bara það sem ykkur þykir gott).
- Skerið nokkra mini tómata til helminga og skreytið.
- Gott er að kæla nachosdýfuna aðeins áður en hennar er notið en þó ekki nauðsynlegt.
D