ÖmmusnúðarÞessa dásamlegu stökku kanelsnúða bakaði  hún amma Guðrún ofan í okkur í tonnavís frá því ég man eftir mér. Það þurfti ekki annað en leggja inn pöntun og snúðar voru komnir með heimsendingu stuttu síðar, meira að segja kom nokkrum sinnum risastórt Mackintosh box af snúðum til okkar til Seattle á meðan við bjuggum þar. Þetta lýsir henni elsku ömmu minni vel því hún vildi alltaf allt fyrir okkur gera.

Ég tók þessar myndir í júlí 2016 og hélt ég væri löngu búin að setja inn uppskriftina. Það var hins vegar ekki fyrr en við stelpurnar hennar vorum að fara að baka snúða fyrir erfidrykkjuna hennar um daginn að ég áttaði mig á því að þetta var hvergi að finna. Þá var farið í handskrifuðu uppskriftarstílabókina hennar og auðvitað fundum við þá fljótt þar. Aðeins er að finna innihald og ekki aðferð við flestar uppskriftir hjá ömmu enda gerði hún þetta eftir sinni hendi og svona dass og smá hér og þar. Við náðum engu að síður að gera þá ansi ömmulega ef ég segi nú sjálf frá.

ömmusnúðarnir

Ömmusnúðar

 • 500 g hveiti
 • 180 g smjörlíki við stofuhita
 • 150 g sykur
 • 2 tsk. lyftiduft
 • 1 tsk. hjartarsalt
 • 1 egg
 • 150 ml nýmjólk
 • Rjómi og kanilsykur til að smyrja á milli

 1. Hitið ofninn 180°C.
 2. Setjið allt saman í hrærivélarskálina (nema rjóma og kanilsykur) og blandið með K-inu. Hellið mjólkinni saman við í nokkrum skömmtum.
 3. Færið svo yfir á borð og hnoðið svolitla stund, deigið mýkist við það og fletjið síðan deigið út á hveitistráðu borði, c.a 30 x 50 cm.
 4. Penslið með rjóma og stráið vel af kanilsykri yfir.
 5. Rúllið upp (frá lengri hliðinni) og skerið niður rúmlega 1 cm sneiðar og raðið á bökunarplötu.
 6. Bakið þar til snúðarnir fara að gyllast (um 15-18 mínútur).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun