Kanillengja með marsípani og glassúrMig hefur lengi langað til að prófa að útbúa kanillengju. Kanilsnúðar af ýmsum gerðum eru reglulega útbúnir á mínu heimili og var þetta skemmtileg tilbreyting og alls ekki flókið ferli í framkvæmd þó svo það líti út fyrir það.

Deig (dugar í 2 stórar kanillengjur)

 • 160 gr smjör
 • 600 ml mjólk
 • 1 pk þurrger
 • 1 kg hveiti (gæti þurft örlítið meira)
 • 100 gr sykur
 • ½ tsk salt
 • 1 ½ tsk kardimommudropar

 1. Bræðið smjör og hitið mjólkina útí þar til ylvolgt.
 2. Blandið þurrgerinu saman við mjólkurblönduna og leyfið að standa í um 5 mín.
 3. Blandið öllum þurrefnunum saman og hnoðið saman við mjólkurblönduna (í litlum skömmtum).
 4. Blandið kardimommudropunum í deigið og hnoðið með króknum (ef notast er við hrærivél) á meðalhraða í um 5 mínútur.
 5. Deigið ætti að losna nokkurn veginn frá hliðunum. Ef það klístrast enn mikið, bætið þá um 50gr af hveiti til viðbótar saman við og hnoðið.
 6. Setjið smá matarolíu í skál og veltið deigkúlunni upp úr olíunni og plastið skálina. Látið hefast í klukkustund og þá ætti deigið að hafa tvöfaldað stærð sína.
 7. Hnoðið loftið úr deiginu og skiptið í 2 hluta. Fletjið hvorn um sig út á stærð við bökunarplötu (kannski örlítið minni).
 8. Smyrjið fyllingu á miðjuna (á 1/3 af deiginu) og myljið marsipanið yfir (uppskrift af fyllingu hér f.neðan).
 9. Skerið rákir sitthvoru megin við fyllinguna sem vísa niður og fléttið saman.
 10. Látið hefast að nýju í um 30 mínútur undir viskastykki.
 11. Penslið með eggi og bakið í 190°C heitum ofni í 18-20 mínútur.

kanillengja

Fylling

 • 160 gr mjúkt smjör
 • 210 gr sykur
 • 3 msk kanill
 • 2 msk vanillusykur
 • 300 gr marsípan

 1. Allt hrært saman í skál nema marsípan og skipt í tvo hluta.
 2. Fyllingu er smurt á deighlutana tvo (sjá mynd) og marsípanið mulið yfir fyllinguna (150 gr á hvorn).

Glassúr

 • 150 gr flórsykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 7-9 msk rjómi

 1. Allt hrært saman í skál.
 2. Sett i zip lock poka og lítið gat klippt á eitt hornið.
 3. Drisslið yfir kanillengjuna þegar hún hefur kólnað.

Einnig má sleppa því að setja glassúr ofan á og sömuleiðis fyrir þá sem það kjósa má sleppa því að setja marsípan inn í með fyllingunni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun