Eldri dóttir mín varð 12 ára í vetur og loksins gaf ég mér tíma til að setjast niður og fara yfir myndirnar sem ég tók.
Ég ætla að leyfa myndunum að tala sínu máli með stuttum útskýringum fyrir neðan hverja og eina því í raun er hægt að nota hvaða uppskrift sem er í þessar kökur, kökupinna og bollakökur.
Veisluborðið bíður eftir gestum: Blöðrur límdar á vegginn ásamt fánum (keypt í Target). Einlitur plastdúkur og skrautlegt gotterí á boðstólnum.
Sykurmassakaka á þremur hæðum: Súkkulaðikaka með súkkulaðismjörkremi, papparör og pappaspjöld notuð á milli hæða til að styrkja kökuna. Hjúpuð með hvítum sykurmassa og svo blúndur límdar þar utan á. Blúndurnar eru gerðar með því að skera strimla af sykurmassa með pizzahníf og krulla upp á aðra hliðina með kúluáhaldi og hafa þunnan stífan svamp undir (fæst allt í Allt í köku). Byrjið á því að líma efsta renninginn fyrst og fikrið ykkur svo niður með jöfnu millibili. Blóm föndruð eða annað fallegt skraut og silkiborði vafinn um miðjuna.
Makkarónur: Sama uppskrift og í bleiku kökunum hér nema vanillusmjörkrem sett á milli og flórsykri stráð yfir með sigti.
Bollakökur: Betty Crocker Devils Food Cake Mix með Royal búðing (uppskrift af bollakökum hér) og vanillu smjörkrem (uppskrift hér). Skreytt með sykurmassablómum sem útbúin voru nokkrum dögum áður.
Kökupinnar: Þetta er án efa uppáhaldið mitt í kökugerð! Hér finnið þið ýmsar uppskriftir af kökupinnum og í raun hægt að nota hvaða uppskrift sem er. Bláu pinnarnir voru súkkulaði að þessu sinni og þeir hvítu vanillu. Dýft í Wilton Candy Melts og skreytt með sykurmassablómum, kökuskrauti og fínum lakkrísmulningi.
Sykurpúðar sem búið er að dýfa í Candy Melts og skreyta með lakkrískurli og kökuperlu.
Tyrkisk Peber brjóstsykur og Djúpur í skálum.
Rice Krispies kökur með sykurperlu (uppskrift hér nema nú sett í lítil form)
Gjafapokar fyrir hvern afmælisgest að taka með heim.
Ef þið eruð með fyrirspurnir um nánari útlistun á aðferðum/uppskriftum endilega sendið línu á gotteri@gotteri.is