Loksins lét ég verða af því að útbúa makkarónur!
Þetta er verkefni sem ég hef miklað svo fyrir mér og hreinlega ekki lagt í þrátt fyrir að vera búin að lesa litlu sætu „makkarónubókina“ sem ég keypti mér í Seattle spjaldanna á milli. Í lok sumars ákvað ég þó að drífa í þessu einn daginn og viti menn, þetta var alls ekki svo flókið ef fyrirmælum er fylgt vel og vandlega.
Ég studdist við uppskrift og tækni frá henni Beth „vinkonu“ minni á Youtube og notaði svo uppskriftir af fyllingum úr bókinni minni.
Mæli eindregið með því að þið horfið á þetta video og prófið ykkur áfram því makkarónur eru yndislega fallegar á borði, litlar, sætar og bragðgóðar.
Hér fyrir neðan er ég búin að setja saman uppskriftina frá Beth og tvær mismunandi uppskriftir af fyllingum úr bókinni „Irresistible macaroons“. Ég setti súkkulaðifyllingu á bleiku makkarónurnar og jarðaberjafyllingu á þær súkkulaði en að sjálfsögðu má líka hafa þetta súkkulaði+súkkulaði og jarðaberja+bleikt.
Franskar makkarónur
- 2 bollar flórsykur
- 1 bolli möndlumjöl
- 2 eggjahvítur
- ¼ bolli sykur
- ¼ tsk Cream of Tartar
- Örlítið salt
- Setjið möndlur (afhýddar) í blandara/matvinnsluvél og hakkið þar til fínt mjöl (eða kaupið tilbúið möndlumjöl).
- Blandið möndlumjöli og flórsykri saman í skál.
- Setjið flórsykursblönduna í gegnum sigti í aðra skál og geymið.
- Setjið eggjahvítur, Cream of Tartar og salt í hrærivélina og þeytið þar til byrjar að lyftast.
- Bætið sykrinum útí og þeytið í um 3-5 mínútur þar til stífþeytt og topparnir halda sér, bætið matarlit útí á þessu stigi og blandið vel.
- Hellið flórsykursblöndunni saman við eggjahvíturnar og vefjið saman. Hér þarf að fara sér varlega og varast að hvorki hræra of mikið né of lítið. Beth miðar við að vefja á bilinu 65-75 sinnum og þá ætti blandan að vera teygjanleg og fín.
- Setjið blönduna í sprautupoka með hringlaga stút sem er um 1,5cm í þvermál (eða klippið gat á sterkan poka.
- Sprautið jafna hringi/doppur á bökunarpappír sem eru um 2,5cm í þvermál og hentar vel að sprauta 4×5 kökur á plötuna. Þessi uppskrift gefur um 2 plötur = 40 stk (sem síðan verða 20 þegar búið er að setja krem á milli).
- Þegar búið er að sprauta 20 kökur skal slá plötunni nokkrum sinnum í borðið til að losna við loft úr kökunum.
- Látið kökurnar standa í 30 mínútur áður en þær eru bakaðar og stillið ofninn á 130 gráður (blástursofn).
- Bakið í 15-20 mínútur og kælið.
- Skreytið með súkkulaði (ef vill). Bræðið og setjið í poka, klippið agnarlítið gat á eitt hornið og rennið fram og tilbaka á meðan kökurnar eru enn á bökunarpappír.
- Þegar súkkulaðið hefur storknað skal para saman kökur og snúa á hvolf.
- Sprautið að lokum kremi á botnana. Skiljið eftir smá pláss í kantinn því þegar þið klemmið saman pör þarf smá pláss til að geta ýtt þeim saman án þess að kremið fari of langt útfyrir.
- Kælið (geymist vel í kæli allt að 5 daga).
Súkkulaði makkarónur: Skiptið um ¼ bolla af flórsykri út fyrir bökunarkakó
Súkkulaðifylling
- 120gr suðusúkkulaði (gróft saxað)
- 100ml rjómi
- 20gr flórsykur
- 30gr smjör (skorið í teninga)
- Setjið súkkulaðið í hrærivélarskálina.
- Hitið rjóma og flórsykur að suðu.
- Hellið rjómablöndunni yfir súkkulaðið og hrærið rólega þar til súkkulaðið er bráðið.
- Bætið smjörinu samanvið og hrærið þar til það leysist upp.
- Kælið í nokkrar klukkustundir (yfir nótt) og setjið svo á kökurnar.
Jarðaberjafylling
- 50gr smjör við stofuhita
- 150gr flórsykur
- 1 bolli fersk jarðaber (unnin í gegnum sigti og safinn notaður)
- Þeytið smjör og flórsykur saman þar til létt og ljóst.
- Skerið jarðaberin í bita og kremjið með skeið í sigti til að ná safanum úr.
- Þegar þið hafið náð 3msk af jarðaberjasafa er honum hellt útí flórsykursblönduna og blandað vel.
- Setjið kremið í sprautupoka og klippið gat (um 1cm) eða notið sambærilegan stút og setjið um það bil magn sem nemur einni teskeið á hverja köku (minna/meira eftir smekk).
Ég prófaði bæði að sprauta beint á bökunarpappír líkt og Beth gerir og notast við sérstaka sílíkonmottu fyrir makkarónur. Ég verð að segja að mér fannst eiginlega bara betra að nota bökunarpappírinn en auðvitað urðu þær fullkomnari í laginu á mottunni svo ég mæli bara með að vanda sig og nota pappírinn.
Mér finnst þetta alltof fáar eggjahvítur miðað við þurrefni, getur það passað?