Tíminn flýgur og brátt er komið ár frá þessari fagurbláu Frozen veislu!
Skottan mín varð 6 ára í mars í fyrra og kom ekkert annað til greina en að hafa aftur Frozen veislu. Í 5 ára bekkjarafmælinu var skellt í örlítið einfaldari útgáfu en þessa svo hér fáið þið enn fleiri hugmyndir fyrir komandi prinsessuafmæli.
Myndir úr veislunni birtust í Gestgjafanum fyrr í vetur svo mögulega hafa einhver ykkar nú þegar séð þá umfjöllun.
Það var hún Ingunn hjá Andlitsmálun Ingunnar sem sá um að gera stelpurnar svona fallega skreyttar í framan!
Hér fyrir neðan kemur síðan uppskrifta- og myndaflóð fyrir áhugasama!
Frozen glerkaka með Elsu á toppnum
Kaka
- 4,5 bollar púðursykur
- 1,5 bolli mjúkt smjör
- 6 egg
- 3 tsk vanilludropar
- 4 bollar hveiti
- 1 ¼ bolli bökunarkakó
- 1,5 matskeið matarsódi
- 1 tsk salt
- 2 bollar súrmjólk
- 2 bollar sjóðandi vatn
- Þeytið saman púðursykur og smjör þar til létt og ljóst.
- Bætið eggjunum samanvið, einu í einu, skafið niður á milli.
- Þeytið þessa blöndu á háum hraða þar til loftkennd og bætið þá vanilludropunum útí.
- Blandið saman þurrefnunum (hveiti, kakó, matarsóda og salti) og blandið saman við til skiptis við sýrða rjómann.
- Hrærið á lágum hraða þar til vel blandað og bætið þá sjóðandi vatninu samanvið.
- Skiptið niður í kökuform (hér var notast við 2x 20xm og 2x 14cm form)
- Bakið í um 35 mínútur við 170°C eða þar til prjónn kemur hreinn út og kælið botnana.
Súkkulaðikrem á milli botna
- 250gr smjör (mjúkt)
- 900gr flórsykur
- 2 eggjahvítur
- 3 tsk vanilludropar
- 5 msk sýróp
- 6msk bökunarkakó
- Setjið öll hráefnin nema flórsykur og kakó í hrærivélarskálina og hrærið vel saman.
- Blandið flórsykri og kakó saman og bætið varlega útí blönduna, skafið niður á milli og hrærið þar til kremið er slétt og fellt.
Vanillukrem til að þekja undir sykurmassa
- 125gr smjör (mjúkt)
- 500gr flórsykur
- 1 eggjahvít
- 2 tsk vanilludropar
- 2 msk sýróp
- Setjið öll hráefnin nema flórsykur í hrærivélarskálina og hrærið vel saman.
- Blandið flórsykri saman og bætið varlega útí blönduna, skafið niður á milli og hrærið þar til kremið er slétt og fellt.
Blátt gler
- 3 ¾ bolli sykur
- 1 ½ bolli ljóst corn-syrup (fæst í Hagkaup)
- 1 bolli vatn
- 1 msk piparmyntudropar (glærir)
- Blár matarlitur
- Hrærið sykur, sýróp og vatn saman í góðum potti á meðalhita þar til sykurinn er uppleystur.
- Hækkið hitann og leyfið að bubbla án þess að hræra í á meðan í nokkrar mínútur.
- Hafið skál með klakavatni til hliðar og látið reglulega leka smá sykurblöndu í skálina. Þegar sykurræman sem myndast í vatninu brotnar auðveldlega (er ekki lengur seig) þá er blandan tilbúin (varist að hita of lengi því þá gulnar blandan)
- Bætið piparmyntudropum og matarlit útí og blandið vel saman.
- Hellið í bökunarskúffu sem hefur verið spreyuð vel með matarolíuspreyi og leyfið að harðna.
- Lyftið upp og brjótið niður eftir hentugleika.
Annað
- 1 fata af hvítum sykurmassa (litið hluta með bláum matarlit)
- Pappaspjald undir efri botninn
- Pappastangir/grillpinnar til að halda efri kökunni
- Lítil Frozen dúkka (þessi keypt í Toysrus)
Samsetning
- Takið hvern botn í sundur með kökuskera/tvinna og klippið pappaspjald jafn stórt efri botninum og staðsetjið þá köku á spjaldinu frá fyrsta botni.
- Setjið súkkulaðikrem á milli laga og þekjið hvora köku með vanillukremi.
- Þekjið þar næst báðar kökurnar með hvítum sykurmassa.
- Stingið pinnum í neðri kökuna (þó aðeins svo efri kakan nái að sitja á þeim og þeir nái ekki lengra en kanturinn á þeirri köku og helst aðeins fyrir innan).
- Klippið af pinnunum þar til þeir eru jafnháir kökunni (allt í lagi að taka þá upp úr aftur og setja svo niður að nýju).
- Leggið efri kökuna (með pappaspjaldið undir) á pinnana.
- Útbúið snjókorn með sykurmassastimpli og geymið til hliðar (í nokkrum mismunandi bláum litum og í hvítu).
- Útbúið misbláan sykurmassa í 3 tónum fyrir neðri kökuna og mælið ummálið á henni. Rúllið út 2 ræmur af hverjum lit (skerið svo renninga með pizzaskera). Gerið aðeins einn renning í einu og krullið uppá annan endan á þéttum sykurmassasvampi með kúluáhaldi/pinna til þess að útbúa blúndu. Límið svo slétta endann á kökuna með sykurmassalími (smá sykurmassi settur í volgt vatn) og notið pensil til að bleyta í. Lagið blúnduna til eftir þörfum með fingrunum. Byrjið efst á 2x hvítum og færið ykkur svo alltaf niður og felið samskeytin á milli. Reynið að áætla jafnt bil fyrir hvern lit þar til þið eruð komin alveg niður á kökudisk með síðustu blúnduna í dekksta bláa litnum.
- Rúllið þá litlar sykurmassakúlur í mismunandi litum og límið allan hringinn á milli hæða á kökunni til að fela samskeytin og límið snjókorn á efri kökuna.
- Stingið bláum brjóstsykri niður þar sem þið kjósið (gott að stinga fyrst í sykurmassann með hníf og setja brjóstsykurinn svo í gatið eins langt niður og þarf til að hann sé stöðugur)
- Komið Elsu dúkkunni fyrir á toppnum!
Rósakaka
- 2 x Betty Crocker vanillu kökumix og aukahráefni skv.leiðbeiningum á pakka
- 3 x vanillusmjörkremsuppskrift (sama uppskrift og til að þekja Frozen sykurmassakökuna)
- Blár matarlitur
- Sykurmassasnjókorn (afgangur frá Elsukökunni, má sleppa)
- Hrærið tvöfalda uppskrift af kökumixi og skiptið jafnt niður í 3 skálar.
- Litið 2 hluta með mismiklu af matarlit. Farið varlega með litinn, bara c.a 2 dropa í aðra skálina og svo slatta í þá næstu, munið að lita ekki 1/3.
- Bakið í um 20-22cm formum samkvæmt leiðbeiningum á pakka, kælið og skerið ofan af öllum botnunum svo þeir verði jafnir.
- Smyrjið kremi á milli laga sem búið er að lita í misbláum lit og þekjið síðan með þunnu lagi af smjörkremi.
- Sprautið rósamynstur í 3 mismunandi litum í takt við botnana og notið stút 2D frá Wilton við verkið.
Kökupinnar
Blanda af súkkulaðiköku og vanillukremi dýft í bláan og hvítan Candy melts hjúp. Hvítu pinnarnir skreyttir með bláu glimmeri og þeir bláu með hvítu kökuskrauti.
Kökupinnakonfekt
Súkkulaði kökukúlur settar í konfektmót (sílikonmót) sem búið er að hálffylla með bræddu suðusúkkulaði. Sett í frysti í um 15 mínútur og þá er hægt að taka súkkulaðið með kúlunni úr forminu. Efri hlutanum er þá dýft í Candy melts og skreytt með kökuskrauti.
Mini brownie með marengstopp
Marengstoppar
- 3 eggjahvítur
- 3 dl sykur
- Blár matarlitur
- Hitið ofninn 130°C
- Stífþeytið eggjahvítur og sykur (þó ekki of mikið því þá springur marengsinn frekar)
- Setjið bláan matarlit í blönduna í lokin.
- Setjið marengsinn í sprautupoka með stórum stjörnustút.
- Sprautið hæfilega stóra toppa á bökunarplötu klædda með bökunarpappír og bakið í um 30 mínútur (leyfið að kólna í ofninum svo þeir springi/falli síður). Hægt er að útbúa toppana með fyrirvara og geyma vel plastaða á þurrum stað.
Brownies
- 50gr smjör við stofuhita
- 200gr suðusúkkulaði (bráðið)
- 1 bolli sykur
- 2 tsk vanilludropar
- ¼ tsk salt
- 1 msk bökunarkakó
- 2 egg
- 2 msk volgt vatn
- 2/3 bolli hveiti
- 500ml þeyttur rjómi (á milli brownie og marengs)
- Hitið ofninn 175 gráður
- Þeytið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst.
- Bætið eggjum og vanilludropum samanvið og skafið niður á milli.
- Næst fer bráðið súkkulaðið í blönduna og að lokum öll þurrefnin.
- Hrærið rólega þar til allt er vel blandað og varist að vinna deigið ekki of lengi.
- Spreyið mini-cupcakes álform vel með PAM og skiptið niður í um 20-24 mini-brownies
- Bakið í um 15 mínútur eða þar til prjónn kemur út aðeins með smá kökumylsnu á en ekki blautu deigi.
- Kælið þar til þið náið að snúa og lyfta hverri köku úr fyrir sig og færa á kæligrind/bökunarpappír.
- Setjið rjómann í sprautupoka með stórum hringlaga stút og sprautið á hverja brownie.
- Setjið marengsinn þar næst ofan á og hægt er að strá kökuskrauti í rjómann ef vill.
- Hægt er síðan að setja afgangs marengstoppa í skálar sem snarl.
Bollakökuís
- Súkkkulaðikaka sem ykkur þykir góð bökuð í ísformum.
- Ísformin sett í bollakökuform úr áli, álpappír settur neðst meðfram svo þau velti ekki í ofninum og vel af kökudeigi í hvert form, bakað saman í ofninum og kælt.
- Smjörkrem sprautað á með stórum hringlaga stúti og sett stutta stund í kæli.
- Hvítt súkkulaði brætt og hellt yfir toppinn á kreminu, leyfið að leka örlítið niður.
- Skreytið með kökuskrautu og M&M áður en súkkulaðið harðnar.
Mini bollakökublóm
Súkkulaði bollakökur skreyttar með smjörkremi sem búið er að lita aðeins við grennri endann á stút no 125 frá Wilton. Kreminu sprautað í blóm og skreytt með sykurperlu og kökuskrauti.
Blúndubollakaka
Súkkulaðikaka skreytt með smjörkremi sem sprautað er á með stút númer 2D frá Wilton, kökuskraut og hvít piparmyntukúla á toppinn (yfirleitt til hvítar, bleikar og grænar í nammibarnum í Hagkaup).
Rice Krispies
Sú uppskrift sem ykkur þykir góð, finnið eina góða hér í umfjöllun.
Ískex
Hluta af ískexi dýft í blátt Candy Melts. Súkkulaðið látið leka af eins og unnt er og svo er kexið lagt á bökunarpappír og skreytt með skrautsykri/kökuskrauti.
Makkarónur
Þessi uppskrift hér nema bláar með vanillusmjörkremi (sama kremuppskrift og fyrir kökurnar) og kökuglimmeri stráð yfir.
Sykurpúðar
Sykurpúðum dýft í blátt Candy Melts á priki og kökuskrauti stráð yfir.
Frozen krúsir
Frosh flöskur skreyttar með útprentuðum Frozenmyndum af Pinterest, blá papparör og búið að setja bláan matarlit í Sprite Zero til að gera „jökulvatn“