Á dögunum setti ég upp afmælisveislu fyrir Gestgjafann og var það skemmtilegt verkefni. Ég smellti af nokkrum myndum samhliða ljósmyndara þeirra og hér má sjá eitthvað af skemmtilegum og bleikum myndum!
Elín Heiða fékk til sín nokkrar vinkonur og fyrir þá sem ekki hafa náð sér í eintak af Gestgjafanum í mars þá má hér finna uppskriftir og hugmyndir í máli og myndum.
Bleik vanillu blúndukaka
Kakan:
2x Betty Crocker vanillu kökumix. Skipt jafnt niður í 4 skálar og 3 hlutar litaðir í mismunandi bleikum tónum. Bakað í 20cm formum, botnarnir kældir og síðan snyrtir til (með kökuskera/hníf) til að allir verði jafnir á þykkt áður en kökunni er raðað saman.
Kremið uppskrift:
Smjörkrem litað að hluta til í mismunandi tónum á milli laga og svo restin lituð í fallegum bleikum lit og sprautað óreglulega á kökuna með laufastút um 1,5cm (t.d Wilton 125)
• 375gr smjör (við stofuhita)
• 1500gr flórsykur
• 3 egg
• 5 tsk vanilludropar
• 6 msk sýróp
Skrautið:
Stráði bleiku kökuglimmeri yfir alla kökuna ásamt því sem ég útbjó stjörnur úr gumpaste nokkrum dögum áður. Notaðist við stjörnu-piparkökumót og annað minna sem ætlað er sykurmassaskrauti, stakk út í hvítu og bleiku og kom fyrir hvítum vír til að geta stungið í kökuna (úr Allt í köku).
Oreo pinnar
Oreo kexkökum stungið í bleikt Candy Melts. Ég skóf hluta af kreminu úr kexinu með tannstöngli til að koma pinnanum fyrir, klemmdi saman papparörið á öðrum endanum, dýfði í Candy Melts, stakk í kexkökuna og leyfði að storkna áður en ég síðan dýfði öllu kexinu síðan í bleikan hjúpinn. Þar sem kexið er nokkuð dökkt dýfði ég þessu 2x í bleika hjúpinn til að síður sæist í gegn um hann, skreytti síðan með kökuskrauti áður en seinni umferðin storknaði. Ef kexið brotnar þegar þið setjið pinnann í þá má alveg setja bara Candy Melts í „sárið“ og festa það aftur þannig.
Sykurpúðar
Pappapriki stungið hálfa leið í sykurpúða, hluta dýft í Candy Melts og skreytt með kökuskrauti.
Bleikur Rice Krispies „ís“
– 50gr smjör
– 1 poki sykurpúðar (um 40stk)
– 5 bollar Rice Krispies
– Bleikur matarlitur
– Íspinnaprik (10stk)
Bræðið smjörið við miðlungshita, bætið sykurpúðunum útí og hrærið stanslaust þar til allir hafa bráðnað saman við smjörið. Setjið bleikan matarlit útí, blandið vel saman við og bætið síðan 1 bolla í einu af Rice Krispies útí í einu. Hellið blöndunni því næst á bökunarpappír með bretti undir svo auðveldara sé að flytja í kæli. Mótið ílangan rétthyrning með sleif/fingrunum (spreyið PAM matarolíuspreyi fyrst á til að festast ekki við blönduna). Íspinnaprikunum er því næst stungið í beggja megin og með jöfnu millibili, reynið að hitta í miðjuna á blöndunni svo ekki sjáist í prik öðru hvoru megin þegar búið er að kæla, þrýstið með fingrunum þegar þetta er unnið svo prikin festist betur. Setjið í kæli í um 30-60 mín og skerið svo þvert yfir og því næst á milli prika til þess að slíta „ísana“ í sundur.
Klassískar Rice Krispies kökur
– 50gr smjörlíki
– 150gr suðusúkkulaði
– 5 msk sýróp
– Rice Krispies
Allt sett saman í pott nema Rice Krispies. Hitað þar til bráðið og ég leyfi þessu alltaf að „sjóða“ í um eina mínútu og hræri vel í á meðan því þá festist blandan betur saman þegar hún kólnar. Takið því næst af hellunni, leyfið að standa í nokkrar mínútur og bætið því næst Rice Krispies útí, hrærið vel á milli og bætið svo meiru við eftir þörfum en varist þó að setja of mikið.
Bollakökur (rósir)
Súkkulaðibollakökur skreyttar með mislitu smjörkremi og stút 2D frá Wilton. Sykurperla sett í miðjuna.
Kökupinnar
Þessir kökupinnar eru blanda af vanilluköku og vanillukremi dýft í bleikt Candy Melts og látnir standa á hvolfi, skreyttir með kökuskrauti áður en hjúpurinn harðnar.
https://www.gotteri.is/2013/10/27/kokupinnagerd/
Bleikt popp í pappapokum
Dreifði poppi á bökunarpappír og stráði ljósbleiku og dökkbleiku Candy Melts yfir með því að setja súkkulaðið í poka og klippa lítið gat á annað hornið. Leyfði því að storkna og setti svo í pappapoka.
Bleik súkkulaðikaka með ganaché
Hér gerði ég 2x 15cm súkkulaðibotn, tók hvorn um sig í tvennt með kökuskera, setti súkkulaðismjörkrem á milli og hjúpaði með bleiku smjörkremi. Gott er að hjúpa fyrst með þunnu lagi af bleiku kremi til að ná að binda alla kökumylsnu, leyfa því að standa í um klukkustund og hjúpa því næst aftur aðra umferð og þá ætti að nást hrein bleik áferð. Gott er að stinga kökunni því næst í kæli á meðan ganaché er útbúið því þá rennur það síður of hratt niður þegar því er dreift jafnt yfir toppinn og fram af brúnunum eins og óskað er.
Kakan (Þessi uppskrift dugar í 2x 15cm botna og nokkrar bollakökur)
– 3 bollar púðursykur
– 1 bolli mjúkt smjör
– 4 egg
– 2 tsk vanilludropar
– 2 2/3 bolli hveiti
– ¾ bolli bökunarkakó
– 1 msk matarsódi
– ½ tsk salt
– 1 1/3 bolli sýrður rjómi
– 1 1/3 bolli sjóðandi vatn
Hitið ofninn 180 gráður. Setjið sykur og smjör í hrærivélina og hrærið saman. Bætið eggjunum í skálina, einu í einu og skafið niður á milli og hrærið þar til létt og ljóst. Setjið því næst vanilludropana útí. Setjið hveiti, kakó, matarsóda og salt í skál og bætið útí skálina til skiptis við sýrða rjómann. Hrærið á lágum hraða þar til vel blandað. Að lokum er vatninu blandað saman við og skafið niður á milli þar til allt er slétt og fínt.
Ganaché:
1 bolli gróft saxað suðusúkkulaði
½ bolli rjómi
1tsk vanilludropar
Hitið rjómann að suðu, hellið yfir saxað súkkulaðið og leyfið að standa í um 2 mínútur. Þeytið því næst saman með písk og blandið vanilludropunum samanvið. Ég leyfði blöndunni aðeins að standa og þykkna áður en ég hellti henni í hlutum á toppinn á kökunni og dreifði varlega úr með kökuspaða og fram af brúninni með reglulegu millibili.
Bollakökur (blóm)
Súkkulaðibollakökur skreyttar með mislitu smjörkremi og stút 125 frá Wilton. Sykurmassafiðrildi sett á toppinn.
Litlar bleikar dúllur
Súkkulaðibollakökur skreyttar með bleiku smjörkremi og stút 2D frá Wilton. Sykurmassablóm sett á toppinn.
Bleikar makkarónur með jarðaberjafyllingu
https://www.gotteri.is/2014/10/10/franskar-makkaronur/
Litlu flöskurnar
Froosh krukkur sem búið er að taka límmiðann af (gott að láta matarolíu liggja á líminu sem ekki fer af með heitu vatni og nudda því síðan þannig af). Fann pink chevron munstur á netinu og prentaði út, klippti svo til (náði miðum á 4 flöskur af 1x A4 blaði klipptu þversum). Límdi samskeytin saman með límbandi og blúnduna keypti ég í Tiger en hún er með lími og var því auðvelt að smella henni á (muna bara að hafa samskeytin á sama stað og á blaðinu). Fyllið með þeim drykk sem ykkur langar (hér var notað jarðaberja Nesquick í mjólk) og fallegt að stinga papparöri í flöskuna.
Nammi í krúsum/skálum
Oft þarf ekki að hafa mikið fyrir því að setja eitthvað fallegt og spennandi á veisluborðið. Hér fann ég fallegar krúsir/skálar, keypti nammi í bleikum og hvítum litum, fyllti þær og raðaði í veisluborðið. Þetta var mögulega eitt það mest spennandi hjá stelpunum að þessu sinni.
Ekkert smá flott afmæli! 😀
Mig langar að forvitnast hvaða matarlit notaru til að ná þessum fallega bleika lit á blúndukökkunni? 🙂