Sprinkles afmælisþema



Ég eeeeelska að skipuleggja afmælisveislur dætra minna og í næsta mánuði verður sú elsta fjórtán ára og ég mun víst ekki fá að gera fleiri stórafmæli fyrir hana. Ég held þó í vonina að fá að aðstoða hana við vinkonupartýið sitt að einhverju leyti og leyfum við  ykkur að sjálfsögðu að fylgjast með því.

Við vorum að spjalla í gær um hvað hún vildi gera á afmælinu sínu þetta árið og þá áttaði ég mig á því að ég var ekki enn búin að setja hér inn færslu frá afmælinu hennar í fyrra! Ég mun algjörlega kenna meðgöngu og síðar brjóstaþoku um að slatti af efni liggur óhreyft hér á tölvunni minni, þetta kemur þó allt inn á næstunni, ég lofa.

Það var eiginlega allt í SPRINKLES eftir þennan dag og hér fyrir neðan getið þið fengið hugmyndir af ýmsu góðgæti. Ég man að ég var á hátindi ógleðinnar svo Betty Crocker og aðrar einfaldar uppskriftir komu klárlega til bjargar ásamt dyggri aðstoð frá afmælisdömunni sjálfri. Diskar, servettur og þess háttar var allt keypt í Allt í köku.

Afmælistertan sjálf er Betty Crocker með Betty Crocker vanilla icing og súkkulaðismjörkremi og risa kökupinnaís á toppnum.

Afmæliskakan

Hvor kaka um sig voru 5 þunnir botnar (8 og 6 tommu form, c.a 20 og 15cm) og er það um 2-2,5 kökumix, 1 x súkkulaðismjörkremsuppskrift á milli og 2 x Vanilla icing þeytt upp með flórsykri til að þekja. Restin af kökumixinu fór í nokkrar bollakökur. Á toppnum gerði ég síðan „risa“ kökupinnaís en síðan voru einnig þannig minni í boði. Ganaché er skemmtileg aðferð til að gera fallega köku og undir færslunni „Bleik bomba“ hér á síðunni getið þið fundið uppskrift og leiðbeiningar um slíkt.

Kökupinnaís

Þessar dúllur hef ég útbúið nokkrum sinnum og elska ég kökupinnabókina hennar Bakerella sem Ragnheiður vinkona mín gaf mér fyrir nokkrum árum. Ég fylgi ferlinu hennar og hægt er að hafa hvernig köku og krem sem er í þessum kökupinnaís, sjá á heimasíðu Bakerella.

Einnig gerði ég nokkra hefðbundna kökupinna og getið þið séð ferlið og fengið hugmyndir undir kökupinnauppskriftir hér á síðunni ásamt því að skoða kennsluefni.

Það er bara ekki hægt að fá nóg af kökupinnum, þeir gera veisluborðið svo fallegt og drottinn minn svo eru þeir dásamlega góðir!

Bollakökur

Hér eru á ferðinni súkkulaði bollakökur með vanillu smjörkremi í mismunandi litum. Ég notast við stút 104 frá Wilton en það er laufastútur og hægt er að búa til svona skemmtileg blóm með honum.

Hér eru einnig súkkulaðibollakökur á ferðinni með Betty Crocker vanilla frosting sem búið er að þykkja með flórsykri og sprauta rósamynstur með stút 2D frá Wilton.

Hrískökur

Hrískökur eru alltaf vinsælar og það tekur aðeins örfáar mínútur að útbúa slíkar svo þær ættu hreinlega að vera í öllum veislum.

 

Kíkið endilega á flokkinn „Veisluhugmyndir og kökuskreytingar“ hér á síðunni en þar er fullt af skemmtilegum hugmyndum fyrir utan uppskriftarflokkana.

Einnig minni ég á haustnámskeiðin en þar er hægt að læra að gera köku með ganaché, smjörkremsskreytingar á heilar kökur, bollakökuskreytingar já eða dásamlegu kökupinnana!

2 Replies to “Sprinkles afmælisþema”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun