Elsku litla gullið mitt hún Hulda Sif varð eins árs gömul þann 19.apríl síðastliðinn. Það var að þessu sinni Sumardagurinn fyrsti og því var ekkert annað í stöðunni en að bjóða upp á mjög sumarlegt afmælisþema og varð gult og hvítt fyrir valinu.
Elín Heiða stóra systir varð 9 ára þann 19.mars og héldu þær saman upp á afmælin sín fyrir vini og ættingja þrátt fyrir að Elín hafi verið búin að fá sína skautaafmælisveislu með bekkjarsystrunum á afmælisdaginn í mars.
Hér fyrir neðan má finna hugmyndir úr veislunni í máli og myndum…….
Afmæliskakan sjálf var tveggja hæða súkkulaðikaka, skreytt með smjörkremi.
Við skelltum í eina aukaköku til þess að báðar fengju nú að blása á kerti á „sinni“ köku og hér er á ferðinni lítil og krúttleg súkkulaði „naked cake“. Þessi er 1x Betty Devils Food Cake mix, með súkkulaðismjörkremi og hjúpuð með Betty Vanilla Frosting.
Það er svo gaman að skreyta kökur með lifandi blómum!
Rice Krispies kökur í ýmsum útfærslum slá alltaf í gegn!
Hér erum við með Rice Krispies „ís“ sem búið er að dýfa í hvítt og síðan gult Candy melts, uppskrift og aðferð að finna hér.
Þessir dúllulegu „donuts“ eru sykurpúða hrískökur, hringirnir snúnir út með plastglasi og svo sleif notuð til að búa til holu í miðjuna. Þeir síðan kældir og að lokum dýft í hvítt Candy melts og kökuskrauti stráð yfir, þetta sló alveg í gegn!
Litlar dúllur standa alltaf fyrir sínu. Mini súkkulaði bollakökur með hvítu smjörkremi sem sprautað er á með stút 2D frá Wilton, kökuskrauti stráð yfir og að lokum M&M á toppinn.
Hér eru á ferðinni gulrótarköku bollakökur (Betty gulrótarkökumix) og gult smjörkrem ásamt smá sykurskrauti.
Marmara kökupinnar sem ég var að prófa í fyrsta skipti. Um er að ræða vanillu kökupinna (Betty vanillu kökumix og vanillu krem) sem dýft er í gult og hvítt Candy melts til að fá fallega marmaraáferð. Ég var með hvítt bráðið Candy melts sem ég setti síðan alltaf smá og smá af gulu saman við og dýfði í gegnum báða liti í einu og út kom skemmtilega mismunandi marmaramynstur.
Einnig voru nokkrir einfaldir gulir gerðir á hvolfi með sykurskrauti og sykurmassafiðrildum.
Á fullorðinsborðinu var síðan að finna þessa hér, ég held þetta séu uppáhalds súkkulaði kökupinnarnir mínir, það er eitthvað við þetta Rice Krispies og súkkulaði í bland.
Elín Heiða fékk fallega hvíta skautastelpu á sína köku og voru það snillingarnir hjá Hlutprent sem sáu um að útbúa afmælisskiltin fyrir mig og þau eru alveg ótrúlega flink, geta gert nánast allt milli himins og jarðar.
Hulda Sif fékk 1 árs skilti!
Gamla góða Egils ananasþykknið í vatni slær alltaf í gegn hjá krökkunum og að þessu sinni settum við nokkrar ferskar ananassneiðar út í.
Á eyjunni voru síðan ýmsar kræsingar fyrir allt fullorðna fólkið og má þar helst nefna (þó margt hafi gleymst að mynda): Ostabakka, mini hamborgara, púðursykurmarengsinn hans pabba (sem hann gerði), jarðaberjatertu frá tengdó, kökupinna, snakk og fleira 🙂
Þessir dásamlegu og djúsí hamborgarar komu frá American Style. Við pöntuðum hjá þeim fyrir ferminguna í fyrra og grunar mig að þetta sé langt því frá í síðasta skipti sem leitað verður þangað þar sem þeir hafa slegið í gegn bæði hjá ungum sem öldnum.
Hversu krúttaðir eru þeir!
Fallegu stelpurnar mínar, vantar bara þá elstu sem lá lasin upp í herbergi á meðan veisluhöldum stóð 🙁
Hulda Sif 1 árs gullmoli