Elsku Elín Heiða mín varð 9 ára í gær þann 19.mars. Þær eru fjórar skotturnar í bekknum sem eiga afmæli á nokkrum dögum í mars og hafa þær haldið sameiginlegt afmæli undanfarin ár fyrir bekkinn. Að þessu sinni var farið á skauta í Egilshöllinni og boðið upp á pizzu og kökur í pásunni.
Það var mikið fjör og mikil læti, já og nokkur marin hné eftir daginn en afmælistertan sló heldur betur í gegn og hér fyrir neðan er að finna ítarlegar upplýsingar um gerð hennar fyrir þá sem vilja prófa!
Skrautleg og vel sykruð skautaterta uppskrift
Athugið að uppskriftin dugar í 4x 20 cm botna og 4x 15 cm botna (hver botn endar um það bil 2-3 cm á þykkt) Lítið mál að minnka þessa uppskrift eigi aðeins að baka einfalda köku en ekki á hæðum.
Botnar
- 870 gr púðursykur
- 430 gr smjör við stofuhita
- 7 egg
- 3 tsk vanilludropar
- 670 gr hveiti
- 110 gr bökunarkakó
- 3 tsk matarsódi
- 1 ½ tsk lyftiduft
- 1 tsk salt
- 470 ml AB mjólk/súrmjólk
- 310 ml sjóðandi vatn
- Blandið hveiti, kakó, matarsóda, lyftidufti og salti saman í skál og leggið til hliðar.
- Þeytið saman púðursykur og smjör þar til létt og ljóst.
- Bætið eggjunum út í einu í einu og skafið vel niður á milli, þeytið síðan vel í lokin þar til vel „fluffy“.
- Því næst fara vanilludropar og AB mjólk saman við blönduna á víxl við þurrefnin.
- Þegar búið er að skafa niður og blanda vel fer sjóðandi vatnið saman við að lokum, hrærið þar til slétt og fellt (deigið er frekar þunnt á þessu stigi).
- Klippið bökunarpappír í botninn á kökuformunum og spreyið vel af matarolíuspreyi á allar hliðar.
- Bakið við 170°C í um 30 mínútur.
- Kakan er þétt í sér svo ekki þarf að skera stórar sneiðar, ég myndi segja hún væri mitt á milli þess að vera brownie og skúffukaka hvað áferð og bragð varðar.
Krem á milli botna
- 250 gr smjör við stofuhita
- 800 gr flórsykur
- 4 msk bökunarkakó
- 5 msk sýróp (pönnukökusýróp)
- Þeytið smjörið þar til létt og ljóst.
- Bætið því næst restinni af hráefnunum saman við á víxl, skafið vel niður á milli og þeytið þar til slétt og fínt.
- Stundum þarf að bæta við smá vatni/flórsykri eftir því hvort þið viljið fá kremið þynnra eða þykkara.
- Smyrjið kremi á milli botnanna en ekki á efsta botninn.
Krem til þess að skreyta með
- 4 dósir Betty Crocker Vanilla Icing
- 500 gr flórsykur
- Þeytið saman Betty og flórsykur þar til hvítt og fallegt.
- Byrjið á því að smyrja grunnlagi á báðar kökurnar, athugið að efri kakan (15cm) þarf að vera á pappaspjaldi til að hægt sé að færa hana á stoðir síðar í ferlinu.
- Skerið til stoðir og komið fyrir í stærri kökunni (ég var með 3 x hol, sver plaströr frá Allt í köku).
- Skiptið kreminu niður í nokkrar skálar og litið að vild (hér notaði ég hvítt, gult, bleikt, fjólublátt, blátt og grænt).
- Smyrjið því næst seinna hvíta kremlaginu á minni kökuna, setjið smá liti hér og þar og dragið síðan saman með spaða til þess að fá vatnslitaáferð á kremið. Færið kökuna þá yfir á stoðirnar fyrir miðri stærri kökunni.
- Skreytið þá hliðarnar á neðri kökunni með „ölduáferðinni“ með því að gera sex jafn stórar „bollustjörnur“ og draga úr hverri með spaða (muna að þurrka af með rökum klút á milli lita…..og já þetta eru milljón handtök) J
- Skreytið síðan toppinn á neðri kökunni, eða það sem stendur eftir af honum og reynið að hafa „öldumynstrið“ þétt upp við minni kökuna til að koma í veg fyrir skil.
- Að lokum má setja smá mynstur á toppinn á minni kökunni til að tengja við þá neðri og ekki er verra að hafa fallegt kökuskilti á toppnum! Þetta skilti pantaði ég hjá Hlutprent.
Það sem setti klárlega punktinn yfir I-ið fyrir skautadrottningarnar var þessi dásamlegi kökutoppur frá Hlutprent.
Litaþema kökunnar var ákveðið í stíl við diskóskrautið sem keypt var fyrir veisluna og hér má sjá afmælistelpurnar þær Elínu Heiðu, Elínu Adriönu, Elísu og Ylfu í Skautahöllinni.
Þetta krútt æfir listskauta með Birninum og kom ekki annað til greina en að afmælisdressið væri skautadress þetta skiptið 🙂
One Reply to “Skautaterta”