
Vinkonurnar Elín Heiða, Elín Adríana og Elísa hafa allar verið saman í bekk frá upphafi skólagöngu og haldið sameiginlegt afmæli fyrir stelpurnar í bekknum. Elín Heiða og Elísa hittust meira að segja á fæðingardeildinni svo það má með sanni segja þær séu búnar að þekkjast alla ævi, mömmurnar voru virkar í Kúlurassaklúbbnum allt fæðingarorlofið og svo enduðu þær á að flytja í sama hverfið nokkrum árum síðar.

Þær héldu að þessu sinni upp á afmælið í Rush og þar var mikið fjör! Þessi kaka var síðan í eftirrétt á eftir pizzu og gosi og svo var seinni eftirréttur krap að eigin vali svo það má segja þær hafi allar farið saddar og sælar út.
Hér er á ferðinni súkkulaðikaka með súkkulaðismjörkremi eins og svo oft áður því það er algjör óþarfi að vera með eitthvað vesen svona kortér í afmæli! Betty mix og súkkulaðismjörkrem og kakan hjúpuð með hvítu Betty Crocker vanilla frosting!
Kakan er síðan skreytt með svörtu ganaché (svart candy melts brætt í rjóma) og bleiku og grænu kökuskrauti. Þegar kökuskrautið er sett á hliðina á kökunni er best að setja vel af því í lófann og þjappa varlega að. Ég var með ofnskúffu undir sem greip allt umfram kökuskraut sem datt af og gat því notað það aftur.
EEE skiltið kemur að sjálfsögðu frá Hlutprent eins og svo oft áður og svo fann ég þessar fallegu fjaðrir í Partývörum þegar ég var að versla fyrir afmælisveislu systranna sem kemur hingað inn á bloggið á næstu dögum.
