Eldhúsið á HringbrautÁ dögunum kom Sjöfn Þórðardóttir sem sér um þáttinn Fasteignir og heimili á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í heimsókn til þess að fá að kíkja á eldhúsið okkar.

Viðtalið í heild sinni má skoða á www.hringbraut.is en eins og fram kemur er eyjan í eldhúsinu hjartað í húsinu okkar og margt og mikið sem fer þar fram. Þarna er yfirleitt allt á hvolfi, verið að elda, mynda fyrir blogg, einhver að læra eða lita, aðrir að borða og allt í hers höndum. Það er svo sannarlega ekki alltaf dúkur né blóm á borðum en að sjálfsögðu gerði ég fínt fyrir þessa heimsókn.

Ég var spurð um mikilvægasta eldhústækið og fyrir mér er það auðvitað aldrei spurning, elsku fallega hrærivélin mín á klárlega vinninginn þar eins og alltaf. Eitt það fyrsta sem ég fékk mér þegar ég flutti að heiman var að sjálfsögðu Kitchen Aid hrærivél og er búin að eiga þær nokkrar síðan!

Liljur eru ein af mínum uppáhalds blómum og ég elska hvað þær ilma vel og lengi en það eru ekki allir fjölskyldumeðlimir sammála mér. Þeim fannst eins og þau væru að koma inn í blómabúð þá viku sem liljurnar lifðu og fannst lyktin fullmikil á meðan ég dásamaði hana daglega.

Ég er lítið fyrir að elta tískustrauma og hina fullkomnu ímynd af nútíma eldhúsi og finnst mikilvægt að hafa hlýlegt og persónulegt í kringum mig. Til dæmis höfum við átt sömu borðstofustóla í bráðum 18 ár en þeir voru eitt það fyrsta sem við keyptum þegar við fórum að búa á sínum tíma, geri aðrir betur!

Mér finnst gaman að blanda saman alls konar húsgögnum og hönnun svo lengi sem þetta er það sem hjartað og þinn smekkur kallar á. Við hlógum til dæmis mikið þegar við keyptum okkur nýtt og fínt borðstofuljós á dögunum til að setja upp við IKEA borðstofuborðið okkar og gömlu borðstofustólana úr EXO 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun