TÍU & TVEGGJA ára afmæli



⌑ Samstarf ⌑
Afmæli

Yngsta og miðjudóttirin eiga afmæli með eins mánaðar millibili eða sú eldri 19.mars og hin 19.apríl og var slegið í sameiginlega systraveislu fyrir vini og fjölskyldu á dögunum.

Ég á það svo sannarlega til að fara aðeins yfir strikið þegar kemur að veisluhöldum á þessu heimili og var að sjálfsögðu engin undantekning þar á í þetta skiptið. Þetta líka fyrsta stórafmælið hennar Elínar Heiðu en hún varð 10 ára, hvert flýgur tíminn! Ég vona þessar hugmyndir, framsetning og uppskriftir gagnist ykkur í veisluundirbúningi og ég leyfi myndunum að tala sínu máli í þessari færslu.

2ja ára afmælisþema

Hulda Sif var með sínar kökur á skenknum á meðan Elín Heiða var með sínar á borðinu þar sem það er jú mikilvægt að hvor fái sína köku á þessu heimili. 2ja ára ljósaskiltið keyti ég í Robinsons í Bangkok þegar við vorum þar í upphafi nýs árs, hef því miður ekki séð slík hérlendis.

10 ára afmælisþema

Ég setti í fyrsta skipti inn „Highlights“ á Instagram og fékk ég fjöldann allan af fyrirspurnum þar í gegn en þið getið kíkt þangað inn til að sjá ferlið við undirbúninginn. Núna ætla ég því að reyna að muna eftir öllu í þessari færslu!

Afmæliskakan hennar Huldu er Betty Crocker súkkulaðikaka með súkkulaðismjörkremi á milli og skreytt með vanillusmjörkremi í mismunandi litum (sjá aðferð í Highlights á Instagram). Ég útbjó 2 x 20 cm botna og 3 x 15 cm botna og staflaði með stoðum. Kökuskiltið kemur frá Hlutprent.

Það var svo langt síðan ég hafði gert rósaköku að ég mátti til með að gera eina slíka í þetta skiptið. Ég ætlaði upphaflega að hafa hana í bláa litnum en ruglaðist aðeins og held það hafi átt að gerast því þessi ferskjulitur kom dásamlega vel út. Ég átti síðan nokkrar tyggjókúlur síðan í 12 ára afmælinu hennar Hörpu (já hún er sko orðin 15 ára núna) og þær pössuðu svona ljómandi vel við litaþemað.

Kakan hennar Elínar Heiðu er Betty Crocker vanillukaka, 3 x 15 cm form, skreytt að innan og utan með vanillusmjörkremi, hvítt drip sett á toppinn og svo þetta snilldar körfuboltastelpu-kökuskilti frá Hlutprent sem hún var ekkert smá ánægð með.

Kakan var efst á plexistandi á fjórum hæðum og voru aðrar hæðar þaktar með dásamlegum kleinuhringjum frá Krispy Creme. Þessir kleinuhringir eru auðvitað svo sjúllaðslega góðir að þeir tóku algjörlega yfirhöndina þegar kom að sætu bitnunum, afmæliskökurnar féllu í skuggann af þeim og enduðu í raun meira sem punt en kökur en það er nú stundum þannig þegar allt of mikið er í boði og mamman á erfitt með að velja út hvað skal baka, hahaha!

Það var erfitt að finna kökuskraut í réttu litunum svo við ákváðum að hafa einfalda kleinuhringi í hvítu, karamellu og original glazed. Uppáhalds kleinuhringirnir hennar Elínar Heiðu eru einmitt karamelluhringirnir og síðan skreyttum við með flottum stjörnupinnum frá Partývörum en allt annað partýdót og skraut í afmælinu kom einnig frá þeim. Snillingarnir hjá Hlutprent útbjuggu líka litlar körfuboltastelpur á pinna til að stinga í kleinuhringina.

Mmmm þetta var svo mikil snilld og gestirnir þvílíkt lukkulegir með þessa kleinuhringi, mæli svo sannarlega með!

Hveru girnilegir geta kleinuhringir annars verið? Slurp mig langar í einn núna!

Þessi hugmynd af litaþema kviknaði þegar ég var að skoða Instagram einn daginn og datt niður á mynd af þessu litaþema hjá Partývörum. Ég sýndi Elínu Heiðu þetta og henni leist mjög vel á og eftir það var ekki aftur snúið, allt var planað út frá ljós peach, gylltu, hvítu og ljós túrkís.

Að dekka upp veisluborð og skreyta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri!

Ég útbjó vanillu kökupinna í stíl við litaþemað og blandi annars vegar saman bleiku og appelsínugulu hjúpsúkkulaði og hins vegar bláu og grænu….sjá og setti smá hvítt með í blöndurnar til að ná þessum ljósu tónum fram. Hér á síðunni getið þið fundið ýmsar uppskriftir og hugmyndir af kökupinnum.

Ég gerði nokkra á hvolfi og nokkra upprétta sem ég stakk í vasa fullan af karamellukúlum. Þegar ég hef tíma geri ég alltaf kökupinna fyrir afmæli, þeir eru svo brjálæðislega góðir og punta svo mikið upp á veisluborðið og mínir uppáhalds eru vanillu að innan sem utan.

Bollakökur voru auðvitað á sínum stað en eins og með kökupinnana þá puntar mikið upp á veisluborðið að hafa fallega skreyttar bollakökur hér og þar. Þær taka hins vegar töluvert styttri tíma en kökupinnarnir svo það er engin afsökun þar.


Lítil mús sem stalst í kleinuhring áður en búið var að segja „gjörið þið svo vel“ við gestina, skil hana bara mjööööööög vel. Hún sagði bara „gaga“ „gaga“ og þá átti hún ekki við Lady Gaga heldur „kaka“ „kaka“ og þegar maður er 2ja þá skilur maður ekki alveg að það þurfi að bíða.

Hún er frekar mikill gikkur þetta gull en þegar það eru keyptir Krispy þá er hún sko alltaf til í einn, ef ekki tvo! Gæti verið hún erfi þetta frá móður sinni en algjör óþarfi að fara nánar út í það hér, haha.

Það er að sjálfsögðu ekki hægt að hafa allar veitingar í litaþema, eða ég myndi í það minnsta ekki panta Sushi, hamborgara og gera ostabakka í túrkís og peach litum.

Almennar veitingar og mat set ég því iðulega á eyjuna hjá okkur í eldhúsinu og þá kemur líka betra flæði þegar fólk fer að sækja sér mat. Það er á eyjunni, á borðstofuborðinu og á skenknum. Að þessu sinni var í boði Sushi, hamborgarar, ostabakki með alls konar gúrme, púðursykurkakan hans pabba og eitthvað fleira.

Þar sem ég set mikinn tíma í það að baka og skreyta þá finnst mér frábært að geta pantað hluta af veitingunum til þess að bæði spara tíma og til þess að geta boðið upp á góðan mat fyrir gestina.

Veislan var síðdegis á föstudegi svo við áttum von á svöngum og mögulega örlítið þreyttum gestum eftir vikuna. Sushi kom frá Tokyo Sushi en það er svo dásamlega gott og sló heldur betur í gegn hjá ungum sem öldnum!

Mér finnst svo gaman að bera skemmtilega fram veitingar að ég tók sushi-ið af plastbökkunum og raðaði á trébakka og hafði hluta á litlum kökudiski á fæti ofan á bakkanum.

Svo mikið girnilegt!

Ég ákvað að þessu sinni að prófa mini hamborgara frá Roadhouse og drottinn minn hvað þeir voru góðir! Ég skil ekki hvernig það er hægt að gera svona litla bita svona djúsí og mikið gúrme.

Kleinuhringjaborgarinn var skemmtileg tilbreyting og mér fannst hann alveg geggjaður en við pöntuðum blandaða bakka til að hafa meira úrval. Ég tók hamborgarana einnig úr plastbökkunum og raðaði á kökudisk á fæti og stórt trébretti.

Þessar tvær voru í það minnsta mjög lukkulegar með daginn!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun