Shopkins afmælisþema



Í vor var Shopkins æðið yfirráðandi hjá henni Elínu minni og kom ekkert annað til greina en halda Shopkins afmæli. Það kom skemmtileg umfjöllun um veisluna á www.mbl.is en síðan steingleymdi ég auðvitað að setja hana hingað inn í kjölfarið svo hér kemur hún loks!

Súkkulaðigosbrunnur og ávextir

Súkkulaðigosbrunnur og ávextir uppskrift

  • 1,2 kg af Odense súkkulaðidropum (seljast í 100gr pokum)
  • 280 ml ljós matarolía
  • 1 ananas
  • 3 öskjur jarðaber
  • 1 askja brómber
  • 1 gul melóna (notast við kúluáhald til að taka innan úr)
  • 1 klasi rauð vínber
  • 1 klasi græn vínber
  • 1 poki mini sykurpúðar (fást t.d í Sösterne Gröne og Krónunni)
  • Grillprik

Súkkulaðigosbrunnur og ávextir aðferð

Skerið ávextina niður í hæfilega stóra bita og raðið ásamt sykurpúðum á grillpinna. Ég gerði um 30 pinna og síðan fór restin af ávöxtunum í skálar og hver og einn gat búið til sinn uppáhaldspinna og dýft í súkkulaðið.

Bræðið súkkulaðið í tvennu lagi í örbylgjuofninum á næsthæsta hita í um það bil 30 sekúndur í senn og hrærið vel á milli. Þegar súkkulaðið er bráðið er matarolíunni blandað saman við og hitað einu sinni til viðbótar. Súkkulaðiblöndunni er síðan hellt í skálina á gosbrunninum og kveikt á, blandan á að vera orðin það vel út þynnt að hún rennur fallega niður brunninn. Ef þið eigið ekki súkkulaðigosbrunn má vel notast við Fondue skálar eða hreinlega bara bræða súkkulaði og hella í venjulega skál, það er merkilegt hvað slíkt stendur lengi án þess að storkna. Ef það fer síðan að storkna má bara setja það örstutt aftur í örbylgjuofninn og aftur á borðið.

Rice Krispies kökur

Rice Krispies kökur uppskrift

  • 50 gr smjör
  • 5 msk sýróp
  • 250 gr suðusúkkulaði
  • Rice Krispies

Rice Krispies kökur aðferð

Hitið smjör, sýróp og suðusúkkulaði saman í potti við miðlungsháan hita og leyfið blöndunni að bubbla aðeins í lokin og takið síðan af hellunni. Bætið þá Rice Krispies saman við í litlum skömmtum. Setjið minna en meira í einu og hrærið vel á milli. Mér finnst best að hafa vel af súkkulaðiblöndu svo kökurnar verði svona frekar klístraðar og „djúsí“ en hægt er að drýgja blönduna betur með smá meira Rice Krispies fyrir þá sem vilja. Setjið í pappaform sem ykkur þykja falleg (hægt að nota bæði lítil og stór) og síðan er hægt að stinga fána eða öðru skrauti í hverja köku.

Cupcake Queen Shopkins afmælisterta

Cupcake Queen Shopkins Kakan

  • 1,5 Betty Crocker Devils Food Cake kökumix samkvæmt leiðbeiningum á pakka (ég blandaði reyndar tvöfalt og notaði restina í bollakökur).

Kökumix hrært samkvæmt leiðbeiningum og hellt í vel smurt risa bollakökuform. Ef þið eigið ekki slíkt er hægt að gera nokkra botna, setja krem á milli og skera út. Ég var síðan með pappaspjald sem sat á grillpinnum á milli hæða til að auðveldara væri að skera kökuna.

Cupcake Queen Shopkins Smjörkrem

(á þessa köku gerði ég 3 x neðangreinda uppskrift)

  • 125gr smjör (mjúkt)
  • 500gr flórsykur
  • 3 tsk vanilludropar
  • 3 msk sýróp
  • Smá vatn
  • Gulur og túrkís matarlitur
  • Kökuskraut

Blandið öllum hráefnum saman í hrærivélarskálinni þar til slétt og fellt. Skiptið kreminu  niður og litið (um 1/3 gulur og 2/3 blár).

Grunnið kökuna fyrst með þunnu lagi af kremi til að binda alla kökumylsnu. Smyrjið þá aftur þykkara lagi á neðri hlutann og sléttið eins og hægt er. Fyrir efri hlutann notaðist ég við stóran hringlaga stút (c.a 3 cm í þvermál) og sprautaði upp í spíral. Áður en efri hlutinn storknaði stráði ég svo kökuskrauti og sykurperlum hér og þar.

Cupcake Queen Shopkins sykurmassaskraut

  • Tilbúið Gumpaste (fæst í Allt í köku)
  • Svartur og bleikur matarlitur
  • Kökuskraut
  • Gullsprey/gyllt glimmer

Blandið smá klípu af gumpaste saman við bæði svartan og bleikan matarlit. Rúllið út og stingið út augu, mótið augnhár, nef, munn, augabrúnir og raðið saman. Fæturna fremst bjó ég til úr bleiku gumpaste og skreytti með kökuskrauti. Kórónuna stakk ég út með hvítu gumpaste og spreyaði með gylltum lit, stráði gylltu glimmeri yfir áður en það þornaði og stakk sykurperlum í hér og þar. Hendurnar mótaði ég með hvítu gumpaste og smurði síðan gulu smjörkremi yfir.

Poppy Popcorn Shopkins afmælisterta

Poppy Popcorn Shopkins Kakan

  • 1 Betty Crocker Red Velvet Cake kökumix samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
  • Smjörkrem (1,5 x uppskrift hér að ofan)
  • Sykurperlur

Kökumix hrært samkvæmt leiðbeiningum og hellt í „Barbie“ bökunarform. Skreytt með smjörkremi í rauðu, bláu og hvítu eftir að dúkkunni hefur verið stungið í kökuna miðja. Fyrst er smurt þunnu lagi af kremi á kökuna og síðan sprautaðar stjörnur með 1M stút frá Wilton og sykurperlum stungið í hér og þar.

Peppa Mint Shopkins afmælisterta

Peppa Mint Shopkins Kakan

  • 1 Betty Crocker Vanilla Cake kökumix samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
  • Smjörkrem (2 x uppskrift hér að ofan)
  • Sykurperlur og smá bleikt glimmer

Kökumix hrært samkvæmt leiðbeiningum og hellt í „Barbie“ bökunarform. Skreytt með bleiku smjörkremi eftir að dúkkunni hefur verið stungið í kökuna miðja. Fyrst er smurt þunnu lagi af kremi á kökuna og síðan sprautað blúndumynstur með stút nr 125 frá Wilton og bleiku glimmeri stráð yfir allt saman í lokin. Að lokum er grænbláum sykurperlum stungið í hér og þar.

Sleikjókúla

Sleikjókúla uppskrift

  • 30 stk Chupa Chups sleikjóar
  • ½ gul melóna (hreinsuð að innan)
  • Hjartapinnar (keyptir í Tiger)
  • Álpappír

Melónan holuð að innan (ég bjó til melónukúlur fyrir súkkulaðigosbrunnin úr því) og álpappír settur yfir hana alla. Sleikjópinnum og hjartapinnum stungið í kúluna.

Bollakökur

Bollakökur uppskrift

  • Betty Crocker Devils Food Cake kökumix
  • Smjörkrem (1 x uppskrift að ofan)
  • Smarties, M&M eða Skittles
  • Papparör og útprentaðar Shopkinsmyndir – heimatilbúið skraut

Bollakökur bakaðar, smurðar með smörkremi, skreyttar með Smarties/Skittles/M&M og priki stungið í miðjuna.

Hjúpaðir sykurpúðar

Hjúpaðir sykurpúðar uppskrift

  • 1 poki Haribo sykurpúðar
  • ½ poki Candymelts í hverjum lit (ég notaði 3 liti)
  • Kökuskraut og Smarties
  • Pappaprik

Stingið pappapriki í sykurpúðana svo þeir verði vel fastir. Bræðið Candy Melts og dýfið hálfa leið upp sykurpúðann, skreytið með kökuskrauti og Smarties og leyfið að storkna.

Popp í pappapokum og karamellur settar í litlar marglitar krúsir

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun