Um helgina átti vinkona dóttur minnar 11 ára afmæli og tók ég að mér að skreyta afmæliskökuna hennar.
Hún vildi bleika og fjólubláa rósaköku og langaði mig að smella inn mynd af henni til að gefa ykkur hugmynd af litasamsetningu á kremi.
Hér notaði ég ljósbleikt smjörkrem, tók okkrar matskeiðar af kreminu, litaði fjólublátt og smurði upp með hliðunum á sprautupokanum áður en bleika kremið fór þar ofaní. Ég notaði síðan stút 2D frá Wilton við skreytingarnar og setti svo hvíta sykurperlu í miðjuna á hverri rós og smá bleikt glimmer yfir kökuna alla.
Um er að ræða súkkulaðiköku í 4 lögum, með súkkulaðikremi á milli og hefðbundnu smjörkremi að utan en að sjálfsögðu gæti þetta verið hvernig kökusamsetning sem er.
Kakan
- Betty Crocker Devils food cake mix
- 1/2 Royal súkkulaðibúðingur (duftið)
- Útbúið deigið samkvæmt leiðbeininum á pakka og bætið búðingsduftinu útí í lokin.
- Bakið í 2 x 20cm formum og kælið.
- Skerið hvorn botn um sig í 2 hluta (með kökuskera/hníf).
- Smyrjið kremi á milli laga (x3).
Krem á milli laga
- 125gr smjör (mjúkt)
- 450gr flórsykur
- 1 egg
- 2 tsk vanilludropar
- 3 msk sýróp
- 4msk bökunarkakó
- Setjið öll hráefnin nema flórsykur og kakó í hrærivélarskálina og blandið vel saman.
- Blandið flórsykri og kakói varlega útí blönduna, skafið niður á milli og hrærið þar til slétt og fellt.
Krem fyrir rósir
- 250gr smjör (mjúkt)
- 1kg flórsykur
- 2 egg
- 4tsk vanilludropar
- 4msk sýróp
- Setjið öll hráefnin nema flórsykur í hrærivélarskálina og blandið vel saman.
- Bætið flórsykri varlega útí blönduna, skafið niður á milli og hrærið þar til kremið er slétt og fellt.
- Litið með þeim matarlit sem þið óskið eftir. Ef þið viljið tvílitar rósir er hægt að strjúka smá matarlit/dekkra kremi upp eina eða fleiri hliðar á sprautupokanum.
- Fyllið því næst með ljósari litnum og sprautið í rósir með stút 2D eða 1M frá Wilton (ég kýs frekar 2D).
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í Nettó