Bollakökur með „frosting“ kremiÞegar ég var yngri skar mamma mín alltaf út fiðrildi úr skúffuköku þegar afmæli gengu í garð að ógleymdri 3ja hæða súkkulaðikökunni!

Á þessa fiðrildaköku fór alltaf FROSTING krem og svo var hún að sjálfsögðu skreytt. Þetta krem er létt og loftkennt og minnir einna helst á óbakaðan marengs.

Mikið sem þetta krem er dásamlega gott og skil ég ekki af hverju ég er ekki löngu búin að setja uppskriftina hingað inn.

Þetta krem gengur á hvaða köku sem er, eða bollakökur. Best þykir mér að hafa dökka súkkulaðiköku í grunninn því hún fer einstaklega vel með kreminu og mikilvægt er að hafa nóg af kremi því það bráðnar í munni og er mun léttara í sér en t.d smjörkrem.

Að þessu sinni notaði ég Betty Crocker súkkulaðimix og bætti einu og öðru samanvið og útkoman varð hreint út sagt frábær.

Hér var notast við laufastút númer 125 frá Wilton og 2 hæðir af laufum sprautaðar á bollakökurnar og þær síðan skreyttar. Hægt er að nota hvaða stút sem er eða bara smyrja kreminu á með spaða/skeið. Varist bara að ofvinna kremið ekki því þá gæti það „fallið“.

Bollakökur

 • 1 Betty Crocker Devils Food cake mix 
 • 50gr bökuarkakó
 • 1 royal búðingur (súkkulaði)
 1. Innihald pakkans blandað skv.leiðbeiningum nema kakóið er sett aukalega útí í upphafi.
 2. Þegar deigið er nánast tilbúið er dufti af 1 súkkulaði Royal búðing blandað varlega saman við deigið. Þetta gerir kökurnar einstaklega rakar og mjúkar í sér.
 3. Skiptið upp í um 20-22 bollakökuform eða setjið í eina skúffu, 2 hringlaga form og bakið skv.leiðbeiningum á pakka.

Frosting krem

 • 2 dl af eggjahvítum frá DANÆG, sjá mynd (eða 5 stórar eggjahvítur)
 • 1 bolli sykur
 • ¼ tsk Cream of tartar
 • Örlítið salt (fínt)
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2-3 dropar möndludropar
 1. Setjið allt nema vanillu- og möndludropa í skál og hrærið saman með písk.
 2. Sjóðið vatn í potti (rúmlega botnfylli) sem skálin getur hvílt á og pískið blönduna yfir hitanum þar til sykurinn er allur uppleystur. Getið tekið smá af blöndunni og nuddað milli tveggja fingra og þegar engar sykuragnir finnast er blandan tilbúin (þetta tekur um 4-5 mín).
 3. Færið því næst skálina yfir í hrærivélastandinn/gerið handþeytara tilbúinn og þeytið á „low speed“ í 4 mínútur og næst á „medium speed“ í 7 mínútur.
 4. Núna á blandan að vera orðin nokkuð þykk og setjið dropana því næst útí og hrærið á low á meðan þeir blandast (nokkrar sekúndur).
 5. Að lokum skal þeyta á „high speed“ í 4 mínútur og þá á blandan að vera glansandi og þykk svo að topparnir rétt krullist niður og auðvelt sé að móta kremið. Smyrjið/sprautið eins fljótt og hægt er á kökuna og varist að „ofvinna“ kremið.
 6. Skreytið að vild en varist þó að hafa kökuskrautið í léttari kantinum því kremið er loftkennt og létt.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í Nettó

2 Replies to “Bollakökur með „frosting“ kremi”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun