Senn líður að „Halloween“ og mögulega einhverjir farnir að huga að hræðilegum veisluhöldum. Í fyrra héldu dóttir mín og vinkona hennar saman upp á 12 ára afmælið sitt fyrir skautastelpurnar og var hrekkjavökuþema við völd. Það er oft ýmislegt ógeðslegt í boði í hrekkjavökuboðum en okkur tókst að gera nokkuð sakleysislegar hrekkjavökuveitingar og vonandi getið þið nýtt ykkur þessar hugmyndir!
Ormakakan mikla
Afmælistertan var súkkulaðikaka í 6 lögum, hulin með lakkrís, muldu Oreo stráð yfir allan toppinn og því næst hlaupormum komið fyrir á víð og dreif. Við bökuðum tvöfalda Betty Crocker súkkulaðiköku. Bökuðum 3 x 20cm botna sem allir voru síðan teknir í tvennt. Appelsínugulu vanillusmjörkremi smurt á milli og súkkulaðismjörkremi ofan á kökuna. Athugið að aðeins 1,5 kökumix þarf í þrjá botna og restina notuðum við í bollakökurnar.
Hér fyrir neðan sjáið þið ferlið í grófum dráttum.
Súkkulaði kökupinnar
Huldir með svörtu Candy Melts og skreyttir með kökuskrauti.
Draugabollakökur
Þessar bollakökur eru Betty Crocker Devils kökumix, smá súkkulaði smjörkremi smurt ofan á og því næst muldu Oreokexi stráð þar yfir. Síðan er útbúið Frosting eggjahvítukrem og stór hringlaga stútur notaður til að sprauta í drauga (notið þessa Frosting uppskrift hér). Þegar Frosting kremið hefur náð að taka sig aðeins málið þið augu með svörtum matarlit og litlum pensli.
Bollakökur
Með vanillu smjörkremi og kökuskrauti
Jello heili í skál
Jarðaberja-Jello útbúið samkvæmt leiðbeiningum á pakka nema smá rjómi settur útí í lokin (um 1 msk). Jelloinu síðan hellt í litlar skálar og smá rauðum matarlit sprautað ofan á áður en þykknar. Tyggjókúlur málaðar með matarlitapennum eins og augu og komið fyrir þegar hlaupið hefur tekið sig.
Rice Krispies grasker
Sykurpúða Rice Krispies rúllað í kúlur þegar volgt, brúnu sælgæti (notaði brúnan lakkrís) og grænu Tic Tac stungið í toppinn áður en harðnar, sjá uppskrift hér.
Útskorin grasker með kerti tóku á móti afmælisgestunum.
Nokkrar myndir úr Hrekkjavökupartýinu