Það er kominn OKTÓBER og þó svo Hrekkjavakan sé ekki fyrr en eftir 30 daga má nú alveg fara að undirbúa hana aðeins er það ekki? Ég ákvað í það minnsta að útbúa eina hræðilega krúttlega hrekkjavökuköku til að gefa ykkur hugmynd að einni slíkri.
Hér er á ferðinni Betty Crocker Devils food cake mix með súkkulaðismjörkremi á milli laga. Ég skipti deiginu í þrjú 15 cm kökuform og setti vel af súkkulaðikremi á milli botna. Síðan notaði ég Betty Vanilla frosting, 2 dósir með um 200 gr af flórsykri blandað saman við til að grunnhjúpa fyrst með hvítu og síðan hjúpa aftur með hvítu og setja smá svart og appelsínugult með sem ég dró síðan saman við hvíta litinn með spaða. Ég tók smá af hvíta kreminu og litaði svo tvær dósir eiga að duga ykkur í verkið. Ég hef aldrei áður gert svart ganaché en ég notaði 100 gr af svörtu Candy Melts (fæst í Allt í köku) og 60 ml af rjóma. Rjóminn er hitaður að suðu og hellt yfir saxað súkkulaðið og síðan hrært í með gaffli/písk þar til vel blandað. Oft þarf blandan aðeins að fá að kólna og þykkna áður en henni er smurt yfir og látin leka niður hliðarnar en varist þó að bíða of lengi því þá lekur hún illa niður. Gott er að leyfa súkkulaðibráðinni aðeins að taka sig áður en kökuskrauti er stráð yfir og kökuskilti er stungið í hana.
Hlutprent útbjó fyrir mig þrjú mismunandi hrekkjavöku-kökuskilti og fannst mér þau hvert öðru flottara. Þessi skilti má að sjálfsögðu setja á margt annað en kökur og gaman að merkja hrekkjavöku-veisluborðið með svona fínu skilti. Það er líka sniðugt að panta svona þemaskilti með engu ártali því þá er hægt að endurnýta það ár eftir ár eða safna sér nokkrum til að merkja eitt og annað.
Ýmsar hrekkjavökuhugmyndir er að finna hér á síðunni undir veisluhugmyndir svo endilega kíkið líka þangað.
Nú er bara að búa sig undir „Grikk eða gott“ þann 31.október næstkomandi!