Það er eitthvað við sjónvarpsköku sem gerir mann einstaklega glaðan í hjartanu. Hún er svo dúnmjúk en síðan með stökkum og sætum toppi, ég meina, hvað er hægt að biðja um meira?
Maðurinn minn hefur alla tíð elskað þessa köku. Við fórum hins vegar að rifja upp hvenær ég bakaði slíka síðast og ég ætla ekkert að segja ykkur hverju við komumst að. Eitthvað sem minnir á að tíminn líður áfram á ljóshraða í það minnsta svo ég mæli með að bretta upp ermar og baka hana strax í dag!
Sjónvarpskaka uppskrift
Kakan
- 4 egg
- 300 gr sykur
- 2 tsk vanilludropar
- 250 gr hveiti
- 3 tsk lyftiduft
- 50 gr smjör frá MS
- 200 ml mjólk
Kókostoppur
- 100 gr smjör frá MS
- 200 gr púðursykur
- 70 ml mjólk
- 150 gr kókosmjöl
- Þeytið saman egg og sykur þar til létt og ljóst og bætið þá vanilludropunum saman við.
- Blandið hveiti og lyftidufti saman og sigtið í nokkrum skömmtum út í eggjablönduna og blandið vel á milli.
- Bræðið smjörið við meðalhita og bætið þá mjólkinni saman við og hrærið saman, hellið síðan varlega saman við blönduna, blandið vel og skafið niður á milli.
- Hellið í skúffukökuform sem er um 30 x 40cm stórt. Gott er að klæða formið með bökunarpappír og spreyja með matarolíuspreyi (þá er auðveldara að ná kökunni úr þegar hún kólnar).
- Bakið við 175°C í 30-35 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út og kakan fer aðeins að gyllast. Útbúið kókostoppinn á meðan.
- Bræðið smjör, púðursykur og mjólk saman í potti við meðalhita. Bætið kókosmjölinu saman við þegar bráðið og blandið vel.
- Þegar kakan er tilbúin hellið þið blöndunni jafnt yfir hana og dreifið úr með spaða og bakið áfram í um 10 mínútur eða þar til kókostoppurinn fer að gyllast.
- Leyfið kökunni að kólna vel og lyftið síðan upp úr forminu og skerið í bita. Þessi kaka er dásamleg aðeins volg með ískaldri mjólk.