Áramótatertan



Þar sem ég er með algjört æði fyrir „Dripping“ kökum þessi misserin verður áramótatertan í ár að sjálfsögðu skreytt á þann háttinn. Ég útbjó þessa köku fyrir Morgunblaðið á dögunum og birtist hún einmitt í jólablaðinu þeirra fyrir helgi!

Lýsingin er löng og ítarleg en ekki láta hana hræða ykkur, þetta er eitthvað sem allir geta prófað með þolinmæði og gleði að vopni!

Fyrir þá sem ekki treysta sér í þetta þá er ég með örfá laus pláss á aukanámskeiðinu þann 14.desember svo þá er um að gera að skella sér og læra að gera svona dásemd almennilega.

Botnar uppskrift

  • 1 x Betty Crocker Devils Food Cake Mix
  • 4 egg
  • 100 ml matarolía
  • 250 ml vatn
  • 3 msk bökunarkakó
  • 1 pk Royal súkkulaðibúðingur
  1. Setjið egg, olíu og vatn í hrærivélina og blandið.
  2. Bætið þá kökumixi og bökunarkakó saman við og hrærið vel, skafið niður á milli.
  3. Að lokum fer Royal búðingurinn (aðeins duftið) saman við súkkulaðiblönduna og hrært létt og skafið niður á milli.
  4. Deiginu skipt niður í þrjú 15 cm bökunarform sem búið er að spreyja vel með matarolíuspreyi.
  5. Bakið við 160°C í um 25-30 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út.
  6. Kælið botnana, jafnið með kökuskera (skerið ofan af toppunum) og takið síðan hvern botn í tvennt með kökuskeranum. Þannig endið þið með sex þynnri kökubotna og þá er hægt að hefjast handa við skreytinguna.

Súkkulaðismjörkrem (á milli botna)

•    125 gr smjör (við stofuhita)
•    350 gr flórsykur
•    2 tsk vanilludropar
•    4 msk pönnukökusýróp
•    4 msk bökunarkakó

  1. Setjið öll hráefnin nema flórsykur og kakó í hrærivélarskálina og hrærið vel saman.
  2. Blandið flórsykri og kakó saman og bætið varlega útí blönduna, skafið niður á milli og hrærið þar til kremið er slétt og fellt.
  3. Smyrjið þunni lagi af kremi á milli botnanna í fimm lögum (ekki setja á efsta botninn).
  4. Geymið smá hluta af kremi til að smyrja utan á kökuna með hvíta kreminu sem er útbúið í næsta skrefi og til þess að setja í sprautupoka og skreyta toppinn í lokin.

Hvítt krem (til að þekja með)

•    2 x Betty Crocker Vanilla Frosting
•    200 gr flórsykur

  1. Hrærið vel saman í hrærivélarskálinni þar til hvítt og silkimjúkt.
  2. Setjið smá hluta strax í sprautupoka til að eiga fyrir skreytingu á toppnum í lokin.
  3. Smyrjið örþunnu lagi yfir alla kökuna til að binda alla kökumylsnu, leyfið að standa og taka sig stutta stund. Þetta skref er mikilvægt til að koma í veg fyrir að kökumylsna sjáist í  kreminu.
  4. Smyrjið nú öðru og þykkara lagi af hvítu kremi á kökuna og reynið að hafa jafnt allan hringinn.
  5. Setjið þá smá af súkkulaðikreminu hér og þar yfir hvíta kremið, ýmist með sprautunni eða bara með hníf.
  6. Hér er mikilvægt að taka spaðann sinn og bleyta örlítið (hafa rakan) og draga kremin saman til að mynda marmaraáferðina. Skafa kremið af á milli og bleyta að nýju og halda þannig áfram allan hringinn þar til þið hafið fengið það útlit sem ykkur þykir fallegt.
  7. Setjið kökuna í kæli á meðan þið útbúið ganacé.

Ganacé

•    100 gr saxað suðusúkkulaði (mjög smátt saxað)
•    1/3 bolli rjómi

  1. Hitið rjómann að suðu, hellið yfir súkkulaðið, leyfið að standa í um tvær mínútur og hrærið svo saman með písk/gaffli. Leyfið hitanum aðeins að rjúka úr og setjið því næst á kökuna (muna að þynna með smá rjóma ef það verður of þykkt og kæla betur ef verður of þunnt).
  2. Best að hella aðeins hluta á í einu og stýra því hvernig það lekur niður hliðarnar og hella svo aðeins meira og fara þannig allan hringinn.
  3. Leyfið ganacé að taka sig aðeins á kökunni á meðan þið útbúið skrautið.

Skreyting

  • Hjúpsúkkulaði (hvítt og dökkbrúnt)
  • Ískex-vindlar  (fást í Hagkaup)
  • Papparör og stjörnur á priki (keypt á AliExpress)
  • Ferrero Rocher kúla
  • Risa Nóakropp
  • Venjulegt Nóakropp
  • Kökuskraut, gyllt og hvítt (fæst í Allt í köku)
  • Gyllt kökuskreytingarduft og glimmer (fæst í Allt í köku)
  • Afgangskrem frá kökunni sett í sprautupoka með stjörnustútum með þéttar tennur.
  1. Bræðið hjúpsúkkulaði og dreifið á bökunarpappír í nokkrum skömmtum (ekki of þunnt samt). Stráið því kökuskrauti, glimmeri eða dufti yfir áður en storknar.
  2. Þegar storknað takið þá og brjótið niður eftir því sem ykkur þykir fallegt og stingið í kökuna.
  3. Skreytið með öðru kökuskrauti og kremi að vild.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun