Þessa áramótabombu útbjó ég á dögunum fyrir kökublað Fréttablaðsins. Það er ekki oft sem ég segi „já“ þegar það er hringt í mig og ég beðin um að koma í blöðin með uppskriftir sökum tímaleysis en ég ákvað að slá til að þessu sinni.
Ég var búin að sjá myndband á netinu hjá Jamie Oliver þar sem hann útbjó þessa dásemd og drottinn minn hún var svo girnileg að ég gat ekki beðið eftir að prófa! Heiðurinn er því allur hans en eina sem ég breytti er að ég tvöfaldaði frosting uppskriftina þar sem mér fannst þurfa aðeins meira af henni.
Veisluterta Jamie Oliver
Brownie botnar uppskrift
- 250 gr smjör
- 150 gr 70% súkkulaði
- 2 msk ólífuolía
- 300 gr sykur
- 6 egg
- 150 gr hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- ¾ tsk salt
- 4 msk bökunarkakó
- Setjið smjör, súkkulaði, ólífuolíu og sykur saman í skál og bræðið yfir vatnsbaði þar til slétt og gljáandi, kælið þá í um 10 mínútur og flytjið yfir í hrærivélarskálina eða notist við handþeytara.
- Bætið eggjunum saman við einu í einu og hrærið vel á milli.
- Sigtið þá að lokum hveiti, lyftiduft, salt og bökunarkakó út í blönduna og hrærið saman.
- Klæðið 20-23 cm form með bökunarpappír eftir að hafa spreyjað það með matarolíuspreyi, spreyið einnig matarolíu yfir bökunarpappírinn og hellið deiginu í formið.
- Bakið við 180°C í um 50-55 mínútur (miðað við 20 cm form) og kælið síðan í um 10 mínútur áður en þið lyftið kökunni upp á grind til að leyfa henni að kólna alveg.
- Þegar kakan er orðin köld má skera hana í þrjá þynnri botna og gott er að nota til þess kökuskera.
Rice Krispies botnar uppskrift
- 300 gr suðusúkkulaði
- 75 gr smjör
- 100 ml rjómi
- 1 msk fljótandi hunang
- 130 gr Rice Krispies
- Hitið súkkulaði, smjör, hunang og rjóma yfir vatnsbaði þar til blandan er bráðin, slétt og glansandi.
- Leyfið að kólna í að minnsta kosti 10-15 mínútur áður en Rice Krispies er hrært saman við með sleikju.
- Skiptið jafnt ofan á brownie botnana þrjá.
Frosting uppskrift
- 4 eggjahvítur
- 6 msk fljótandi hunang
- 200 gr sykur
- 1/2 tsk salt
- 2 tsk Cream of tartar
- 2 tsk vanilludropar
- Allt nema vanilludropar er sett í skál yfir vatnsbaði og pískað yfir meðalháum hita þar til sykurinn er uppleystur.
- Blandan er þá flutt yfir í hrærivélarskálina eða höfð yfir pottinum áfram og handþeytari notaður. Blandan er þeytt í um 5 mínútur, vanilludropum blandað saman við og þeytt aftur á meðalhraða þar til glansandi og stífir toppar hafa myndast.
Samsetning aðferð
- Leggið brownie botn með rice krispies á kökudisk og 1/3 af frosting kreminu ofan á.
- Endurtakið tvisvar sinnum til viðbótar.
- Skreytið með rifnu súkkulaði, búið til súkkulaðivindla eða annað sem ykkur þykir fallegt og skemmtilegt er að kveikja á stjörnuljósum áður en kakan er borin fram.
Tertuna útbjó ég daginn fyrir fertugs-fjölskyldu-matarboðið mitt og hafði ég hana í eftirrétt ásamt dásamlegum litlum skyrkökum sem ég set hingað inn rétt bráðum.
Ég á nú eitthvað af kökudiskunum en án gríns þá hef ég aldrei fengið mér hlutlausan hvítan kökudisk fyrr en nú. Mér finnst hann æðislegur og fyrir áhugasama þá fæst hann í Bast í Kringlunni.