Sælgætisterta



⌑ Samstarf ⌑

Sælgætisterta

Það er með þessa dásamlegu hnallþóru líkt og Púðusykurmarengsinn hans pabba að mér er óskiljanlegt ég sé ekki löngu búin að setja þessa uppskrift hingað inn. Þessa köku hef ég bakað reglulega í gegnum árin og uppskriftina er að finna í lítilli spjaldamöppu hjá mömmu og pabba sem heitir „Nýjir eftirlætis réttir“. Ég á engan vegin heiðurinn af þessari samsetningu en langar að deila henni með ykkur þar sem þetta er með betri hnallþórum sem fyrirfinnast! Pabbi minn gerir þessa köku oftast og plata ég hann reglulega til að gera eina marengstertu fyrir barnaafmæli hjá mér.

Marengsterta

Þessi kaka er guðdómleg og hana verða allir að prófa!

Sælgætisterta uppskrift

Botn

  • 3 egg
  • 100 g sykur
  • 45 g hveiti
  • 45 g kartöflumjöl
  • 1 ½ tsk lyftiduft
  1. Þeytið saman egg og sykur þar til létt og ljóst.
  2. Sigtið saman hveiti, kartöflumjöl og lyftiduft og bætið varlega saman við.
  3. Smyrjið um 22 cm smelluform vel og setjið bökunarpappír í botninn, bakið við 175°C í um 12-15 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út.

Marengs

  • 4 eggjahvítur
  • 190 g sykur
  1. Þeytið saman eggjahvítur og sykur þar til topparnir halda sér.
  2. Teiknið um 20 cm hring á bökunarpappír og dreifið jafnt úr marengsblöndunni.
  3. Bakið við 100°C í tvær klukkustundir.

Súkkulaðifylling

  • 4 eggjarauður
  • 5 msk flórsykur
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 3 ½ dl rjómi
  1. Þeytið eggjarauður og flórsykur þar til blandan þykkist og lýsist.
  2. Bræðið súkkulaðið, leyfið hitanum að rjúka úr í nokkrar mínútur og blandið því næst varlega saman við eggjablönduna.
  3. Þeytið rjómann og vefjið honum saman við súkkulaðiblönduna með sleif.

Rjómi og skraut

  • 500 ml rjómi
  • 50 g suðusúkkulaði
  1. Þeytið rjómann og bræðið suðusúkkulaðið.

Samsetning

  • Fyrst fer svampbotninn á kökudisk.
  • Næst helmingur af þeytta rjómanum og ofan á hann helmingur af súkkulaðifyllingunni.
  • Marengsinn kemur þá á milli og svo aftur restin af rjómanum og súkkulaðifyllingunni.
  • Að lokum má strá brædda suðusúkkulaðinu ofan á súkkulaðikremið og kæla kökuna vel. Best er hún ef hún fær að vera yfir nótt í kæli.

Sælgætisterta marengsbomba

Mæli með þið skellið í þessa með helgarkaffinu og þið megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM.

Tags:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun