Aðferð
1. Baka marengstoppa
2. Baka „brownie“ bollakökur
3. Útbúa karamellukrem
4. Þeyta rjóma & saxa suðusúkkulaði
5. Setja allt saman – brownie, karamella, rjómi, marengstoppur
Þessi bollakaka er mögulega örlítið tímafrek í undirbúningi en ég get lofað því að hún er vel þess virði!
Upphaflega var ég að vandræðast með hvernig kaka skyldi búin til fyrir fullorðna fólkið í barnaafmæli dóttur minnar og var ýmist að spá í brownie köku með rjóma og jarðaberjum eða púðursykurmarengstertu með súkkulaðirjóma eins og pabbi gerir alltaf. Þá datt mér það ráð í hug að blanda þessu saman og útfæra í bollaköku, það er algjörlega eitthvað sem ég sé ekki eftir og hefur þessi blanda slegið í gegn alla tíð síðan.
Marengstoppar
3eggjahvítur, 3 bollar púðursykur
Þeyta alveg upp í topp og setja í stóran sprautupoka. Sprauta beint á bökunarpappír (nota stóran stút) og gott er að gera ráð fyrir því að blandan leki örlítið úr við bakstur.
Bakið á 150°C í um 40mín og látið helst kólna í ofninum svo topparnir falli síður.
Þegar topparnir eru orðnir kaldir má bræða um 100gr af suðusúkkulaði og setja í poka/sprautu með litlu gati og leyfa því að leka í ræmum fram og tilbaka og á víxl yfir toppana til skrauts. Hægt er að gera marengstoppana allt að viku fyrr svo lengi sem þeir eru geymdir í lokuðu íláti við stofuhita.
Brownie bollakökur (um 12 stk stórar og 24 litlar)
3/4 bolli smjör
350gr suðusúkkulaði (má blanda mjólkursúkkulaði 50/50 ef þess er óskað)
1 1/4 bolli sykur
1 msk vanilludropar
4 stór egg
1 tsk salt
1 bolli hveiti
1 bolli súkkulaðidropar/gróft saxað súkkulaði
Hitið ofninn 175°C
Bræðið súkkulaði og smjör saman þar til vel blandað, kælið þar til það þykknar örlítið aftur, setjið í hrærivélaskálina.
Bætið sykri, vanilludropum og eggjum útí (einu í einu) súkkulaðiblönduna. Hrærið vel og skafið nokkrum sinnum niður á milli.
Því næst er salti og hveiti bætt við og hrært rólega þar til það hefur blandast vel.
Að lokum er súkkulaðidropum hrært varlega saman við.
Skiptið deiginu niður í um 12 bollakökuform og bakið í miðjum ofni í 10-15 mínútur (eftir því hvort um er að ræða stórar eða mini bollakökur). Gott viðmið er að fylla bollakökuformin um 2/3 svo það fer örlítið eftir stærð formanna sem þið notið hversu margar bollakökur nást úr einni uppskrift.
Í stað þess að baka uppskriftina hér að ofan er líka vel hægt að nota „Betty Crocker Chocolate fudge brownie mix“ 🙂
Karamellukrem
Setjið 4 stór Mars súkkulaðistykki , 10 Freyju-rjómakaramellur og smá rjóma (um 7-10 msk) í pott og bræðið við vægan hita þar til vel blandað. Kælið þar til þykknar og kólnar örlítið og setjið þá yfir bollakökuna miðja með skeið/með sprautupoka, kælið.
Súkkulaðirjómi
Þeytið rjóma (um 0,5l), saxið 100gr af suðusúkkulaði og blandið varlega saman við þeyttan rjómann. Sprautið ofaná karamellukremið (mikilvægt að kremið sé alveg orðið kalt undir)
Hér eru þær í „mini-útgáfu“
Mæli með því að þið prófið þessa uppskrift þegar þið hafið góðan tíma og langið virkilega að dekra við ykkur.
Minni á skráningu í lukkuleikinn hér á heimasíðunni, þú gætir unnið gjafakort á námskeið hjá Gotterí og Gersemum í næstu viku!
One Reply to “Brownie bollakaka með marengs og karamellu”