Um síðustu helgi bakaði ég snúða sem ég er búin að ætla að prófa lengi!
Ég er mikill aðdáandi Cinnabon í Bandaríkjunum og læt mig oft dreyma um þá guðdómlegu snúða. Núna verð ég hins vegar að segja að sú þörf var fullkomlega uppfyllt með gerð þessara snúða, þeir voru svooooooooooo góðir að ég get ekki beðið eftir næstu helgi til að baka þá aftur!
Baksturinn er einfaldur en krefst frekar mikillar „hefunarþolinmæði“ ef ég má búa til það nýyrði.
Ég byrjaði á því að útbúa deigið rétt fyrir hádegi og gaf mér góðan tíma í almennt sunnudagshangs á milli þó svo að sjálfsögðu sá tími gæti nýst í eitthvað gagnlegra. Snúðarnir sjálfir voru svo tilbúnir með glassúr um kaffileytið.
Deig
- 1 pk þurrger
- 180 ml nýmjólk
- 50 g sykur
- 120 ml volgt vatn (+ 1 msk sykur)
- 1 tsk vanilludropar
- 1 egg
- 1 tsk salt
- 60 g brætt smjör
- 520 g hveiti
- Setjið volgt vatn og 1 msk sykur í skál, hrærið þurrgerinu saman við og látið standa í um 5 mínútur eða þar til þurrgerið fer að „bólgna“ aðeins upp.
- Setjið „krókinn“ á hrærivélarskálina og hrærið saman egg, mjólk, salt, sykur og bráðið smjör á lágum hraða þar til vel blandað.
- Bætið við gerblöndunni og vanilludropunum og blandið saman.
- Því næst er helmingnum af hveitinu bætt útí, hnoðað, skafið niður og restinni af deiginu bætt við og hnoðað aftur.
- Þegar deigið hefur blandast vel aukið þá hraðann á hrærivélinni upp í miðlungshraða og hnoðið deigið þannig í um 5 mínútur. Takið úr hrærivélarskálinni og „klappið“ saman í góða kúlu (ef það er of klístrað má bæta örlitlu hveiti saman við).
- Penslið skál með matarolíu, setjið deigið þar í, snúið einu sinni svo deigið hjúpist með olíunni, setjið plast yfir skálina og látið hefast á hlýjum stað í 2 klukkustundir eða þar til deigið hefur um það bil tvöfaldað stærð sína.
- Hellið deiginu úr skálinni á vel hveitistráðan flöt og stráið smá hveiti yfir deigið sjálft. Þrýstið deiginu með fingrunum til beggja hliða þar til það hefur myndað rétthyrndan flöt sem er um það bil 30 x 40 cm
Fylling
- 80 g smjör við stofuhita
- 70 g sykur
- 150 g púðursykur
- 1 ½ msk kanill
- 50 g brætt smjör (til að pensla á í lokin þegar snúðarnir hafa hefast að nýju)
- Smyrjið smjörinu (sem er við stofuhita) jafnt yfir deigið.
- Blandið sykri, púðursykri og kanil saman og stráið jafnt yfir allt deigið.
- Rúllið þétt upp (frá lengri hliðinni) og setjið örlítið vatn á brúnina áður en þið klárið að rúlla deiginu alveg upp því þá festast snúðarnir betur saman.
- Skerið endana af svo allir verði sléttir of fínir. Skerið því næst í 12 jafna hluta (mér finnst best að skipta fyrst í miðju, þeim hlutum svo í tvennt og svo öllum í þrennt)
- Smyrjið skúffukökuform/eldfast mót vel með smjöri, raðið snúðunum með jöfnu millibili í formið, plastið og leyfið snúðunum að hefast aftur í um klukkustund.
- Hitið ofninn í 175 gráður.
- Penslið snúðana með bræddu smjörinu og bakið í um 20-25 mínútur eða þar til þeir eru orðnir vel gylltir. Takið snúðana úr ofninum og útbúið glassúrinn.
Glassúr
- 215 g flórsykur
- 70 g bráðið smjör
- 3 msk nýmjólk
- 1 tsk vanilludropar
- Salt af hnífsoddi
- Setjið öll hráefnin saman í skál og hrærið með skeið þar til vel blandað saman, hellið yfir volga snúðana og smyrjið glassúrnum jafnt á þá alla.
- Aðskiljið snúðana létt með hníf í forminu og náið þeim svo upp með spaða.
Nammi namm þetta eru svo sannarlega bestu snúðar sem ég hef smakkað!
Hér fyrir neðan eru nokkrar af gömlu myndunum sem ég leyfi að fljóta með fyrir betri leiðbeiningar og karamellubráðin er einnig dásamlega góð!
Þessi uppskrift kemur upphaflega frá Lauru Vitale en ég breytti henni þó aðeins.
Deigið aðferð
Fylling aðferð
Himneskir kanelsnúðar með karamellubráð….
Karamellubráð
1/2 bolli smjör
1 bolli púðursykur
5 msk rjómi
Bræðið smjörið við lágan hita. Bætið púðursykrinum og rjómanum útí og hrærið á miðlungshita þar til sykurinn leysist upp. Hækkið hitann örlítið undir lokin og leyfið blöndunni að “bubbla” í 1-2 mínútur og hrærið í allan þann tíma. Leyfið karamellbráðinni að kólna örlitla stund (nokkrar mínútur) og hellið svo yfir volga kanelsnúðana.
sæl ég er ekki alveg að skilja hvað á að vera mikill sykur með egginu , mjólkinni sem maður hrærir svo af þvi að ég er búin að gera gerið og vatnið og sykur en skil ekki hvað hinn sykurinn á að vera mikill
kv anna
úps ég sá það núna hheeheh
12 àra 🙂
Hæ tessir eru ædislegir ,er i Noregi hjà bródir minum og fjölsk og 12 frænka min sudar endalaust um tà aftur og aftur 🙂 er i tessudum töludu ordum ad baka tà i 3 sinn 🙂 takk fyrir okkur
Sæl Jóhanna – frábært að heyra
Þessir snúðar eru alveg rosalega góðir, við fjölskyldan getum algjörlega tekið undir það 🙂
Verði ykkur að góðu
Hvað eru mörg gr í ger pakn. Ég er bara með stóran pakka af geri og ekki er það rétta pakn
Sæl Edda
Venjulega eru litlu þurrgersbréfin um 11-12gr og samsvarar það um 50gr af pressugeri (ef þú ert að tala um þú sést með stóran pakka af slíku)
Vona þetta hjálpi til 🙂
Bestu kveðjur,
Berglind
Mæli algjörlega með því að þið prófið þessa frábæru snúða.
Grunn-uppskriftin af snúðunum er einmitt eftir Lauru Vitale, ég hagræddi örlítið í fyllingunni og notaði svo aðra uppskrift af glassúr þar sem ekki þykir öllum rjómaostur góður 🙂
Næstu helgi ætla ég einmitt að prófa að setja karamellubráð með pekahnetum yfir í stað glassúrs…læt ykkur vita hvernig það tekst til.
Steinunn – hér á síðunni getur þú séð mismunandi mælieiningar og þannig notað annað en bolla (cup) þegar þú ert að baka, https://www.gotteri.is/annad/hagnyt-rad/maelieiningar/
Kveðja,
Berglind
Líst mjög vel á
Daginn
Ég sé að þetta er alveg eins uppskrift og frá Laura Vitale, á ekki að vera rjómaostur í glassúrinum?
Vá frænka!
Þessa verð ég að prufa sem allra fyrst;)
Flott hjá þér.
Mbk;)
Ertu með stóra bolla?