Við fórum í eins árs afmæli til hennar Thelmu Lindar litlu vinkonu okkar í síðustu viku og þar var afmæliskakan Rolo brownie kaka. Hún var svo góð að auðvitað fengum við uppskriftina með okkur heim til að prófa. Við útfærðum hana örlítið þar sem alltaf má gera gott betra, já eða sætt sætara og tókum með í bústaðarferð þessa helgina með kaffinu.
Rolo brownies uppskrift
- 300gr smjör
- 300gr dökkt súkkulaði
- 4 egg
- 200gr sykur
- 200gr hveiti
- 4 Rolo rúllur (og meira til skrauts)
- 150gr hvítir súkkulaðidropar (gróft saxað hvítt súkkulaði)
- Hitið ofninn 150gráður
- Spreyið skúffukökuform (c.a 20x30cm) með PAM og klæðið með bökunarpappír.
- Skerið Rolobitana til helminga og setjið til hliðar.
- Bræðið smjör og súkkulaði saman á vægum hita þar til blandað saman.
- Þeytið saman egg og sykur þar til létt og ljóst.
- Hellið súkkulaðiblöndunni varlega saman við og því næst hveitinu. Varist að hræra of lengi.
- Dreifið súkkulaðideiginu jafnt um kökuformið og stráið að lokum Rolobitunum og hvítu súkkulaðidropunum yfir deigið.
- Bakið í um 35 mínútur og leyfið að kólna alveg áður en kökunni er lyft uppúr forminu.
- Gott er að útbúa súkkulaðibráðina á meðan.
Súkkulaðibráð
- 150gr saxað dökkt súkkulaði (má líka vera ljóst)
- 150ml rjómi
- Saxið súkkulaðið smátt og setjið í skál.
- Hitið rjómann að suðu og hellið yfir saxað súkkulaðið.
- Leyfið blöndunni að standa í um 5 mínútur og hrærið svo vel í þar til þykk súkkulaðibráð hefur myndast.
- Kælið blönduna þar til kakan hefur kólnað (í um 30 mínútur) og hrærið reglulega í henni á meðan svo hún storkni ekki í hliðunum.
- Smyrjið jafnt yfir kökuna, kælið og svo er hægt að skera kökuna í bita og skreyta með Rolo sé þess óskað (ekki nauðsynlegt).
Þetta fór allt guðdómlega vel saman og rann vel niður í mannskapinn. Það má auðvitað sleppa því að setja súkkulaðibráðina á ef maður vill hversdagslegri brownies en hún setur þó alveg punktinn yfir i-ið þegar gera á vel við sig.
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í Nettó