Yngri dóttir mín hún Elín Heiða varð 5 ára á dögunum og fannst henni gaman að fletta Fréttablaðinu í morgun og sjá sjálfa sig þar.
Ég hafði ekki gefið mér tíma til að setja þessar hugmyndir hér inn á síðuna en eftir að þetta birtist í fjölmiðlum verð ég nú að skrifa nokkrar línur og setja inn fleiri myndir fyrir ykkur.
Eins og fram kom í Lífinu er ugluþema eitthvað sem allir geta spreytt sig á, líkt og með önnur þemu. Með viljann að vopni og áhuga á bakstri og kökuskreytingum kemst maður oft ansi langt. Það er þó ekki hægt að hrista stóra þaulskipulagða afmælisveislu fram úr erminni á einu kvöldi. Þetta er þolinmæðisverk og hörku vinna, hafa þarf slíkt í huga áður en lagt er af stað í skipulagningu og mikilvægt að gera raunhæfar væntingar til sjálfs sín. Að vaka fram á nótt og taka á móti gestum með flórsykur í hárinu eða blautt hár og rétt búinn að ná að skella sér í sparifötin er partur af ferlinu og því er gott að undirbúa eins mikið og hægt er með fyrirvara.
Það er til dæmis hægt að baka kökubotnana/bollakökur og frysta löngu áður. Einnig er hægt að rúlla í kökupinnakúlur með góðum fyrirvara, frysta og dýfa þeim svo með nokkurra daga fyrirvara. Gott er að þiggja aðstoð ef hún er í boði og úthýsa verkefnum eins og heitum réttum/mat fyrir fullorðna fólkið o.þ.h til þess að geta einbeitt sér að skreytingunum.
Hér fyrir neðan koma svo nokkrar fleiri myndir úr veislunni.
Bollakökur í skemmtilegum ugluformum
Veisluborðinu stillt upp fyrir myndatöku
Sítrónu bollakökur með glassúr
Möndlukaka
frá www.ljufmeti.com
Uglu kökupinnar
Sæta feita uglan
Líkt og í Frozen leikskólaafmælinu vildi dóttirin fá Ingunni hjá Andlitsmálun Ingunnar til að koma og skreyta alla krakkana í framan og auðvitað var það látið eftir henni. Krakkarnir elska þetta og ég get sagt ykkur að á meðan verið er að skreyta alla spyr maður sig hvort maður sé virkilega í barnaafmæli, svo upptekin eru þau af því að fylgjast með og bíða með númerið sitt eftir að röðin komi að þeim.
Elín Heiða 5 ára afmælisprinsessa með meiru
Cheerios gotterí
Notaðist við Rice Krispies uppskrift nema skipti því út fyrir Cheerios
Popp í litríkum pokum
Keypti það á AliExpress og uglu pappadótið sem pantað var á Amazon
Kökupinnar og hrísköku sleikjóar
(notaðist við uppskriftina af jólagotteríinu fyrir sleikjóana og dýfði hluta í hjúpsúkkulaði)
Uglukveðjur
Berglind