Um helgina skelltum við mæðgur í skinkuhorn í tilefni þess að Gummi frændi var í heimsókn og varð hann 18 ára á sunnudaginn!
Við vöktum hann með nýbökuðum hornunum, söng og súkkulaðiköku. Ég hef áður sett inn uppskrift af einföldum skinkuhornum og er þetta í grunninn svipuð uppskrift nema með smá útfærslum fyrir hátíðleg tilefni.
Skinkuhorn – veisluútgáfa
- 150gr brætt smjör
- 750ml mjólk
- 1 ½ pk þurrger (litlu pokarnir)
- 1250gr hveiti
- 90gr sykur
- 2 tsk salt
- 3 pakkar Skinkumyrja
- 200gr skinka skorin í litla bita
- Rifinn ostur (inn í og ofan á)
- Egg til penslunar
- Bræðið smjörið við miðlungshita
- Hellið mjólkinni út í og hitið þar til blandan er ylvolg.
- Hellið þá gerinu saman við og leyfið að standa í amk 5 mínútur þar til gerið fer örlítið að freyða.
- Setjið öll þurrefnin (hveiti, sykur,salt) í hrærivélarskálina á meðan og hellið mjólkurblöndunni svo varlega saman við og hnoðið með króknum (eða í höndunum).
- Stundum þarf að bæta örlítið meira af hveiti við en deigið má þó alveg vera örlítið blautkennt fyrir hefun.
- Smyrjið skál með matarolíu (ég notaði reyndar PAM matarolíusprey), mótið kúlu úr deiginu og komið fyrir í skálinni, snúið 1x til að maka olíunni allan hringinn og setjið því næst hreinan rakan klút yfir skálina og hefið í um 45 mínútur.
- Á meðan er gott að gera bökunarplötur tilbúnar, skera niður skinkuna og rífa ostinn.
- Skiptið deiginu í 10 hluta (svo hverjum í 8 einingar).
- Fletjið hvern hluta út og skiptið niður með pizzahníf. Raðið smurostinum, skinkunni og osti á hvern hluta og rúllið upp frá breiðari endanum.
- Munið að snúa upp á endana þegar á plötuna er komið til að koma í veg fyrir að góðgætið renni út á endunum.
- Penslið með pískuðu eggi og stráið smá osti yfir hvert horn.
- Bakið í 190°C heitum ofni í 12-15 mínútur eða þar til hornin verða gullinbrún.
Þessi 80 skinkuhorn eru ekki lengi að klárast skal ég segja ykkur en gott er að lauma strax hluta af þeim í frystinn og grípa svo með í nesti eða þegar gesti ber að garði.
One Reply to “Skinkuhorn – veisluútgáfa”