HráfæðisbombaÞessa hráfæðisbombu smakkaði ég í grillveislu ársins hjá vinum okkar þeim Siggu&Sigga í fyrrasumar. Uppskriftina fékk ég fljótlega eftir veisluna og var ég á leiðinni að gera þessa bombu í allan vetur. Loksins lét ég til skarar skríða því ekki get ég nú látið aðra grillveislu líða og vera ekki enn búin að prófa þessa draumaköku sjálf í millitíðinni!

Innihaldið er allt í hollari kantinum og verð ég að segja að þetta er ein sú allra besta og ferskasta hráfæðiskaka sem ég hef bragðað og hentar frábærlega sem eftirréttur í veislunni!

Hráfæðisbomba uppskrift

Botn

 • 2 bollar hnetur (brasilíu, cashew og pekan í bland)
 • 1 bolli möndlur
 • 10 apríkósur
 • 25 döðlur
 • 2 msk sesamfræ
 • 100gr dökkt súkkulaði saxað smátt
 • 3 x hrískökur með/án súkkulaði, muldar smátt
 • 2 x banani stappaðir
 • 3 tsk vanilludropar

Ávextir ofan á

 • ½ ananas skorinn í litla teninga
 • 500gr jarðaber skorin niður Driscoll‘s
 • 250gr bláber Driscoll‘s
 • 250gr hindber Driscoll‘s
 • 125gr rifsber Driscoll‘s
 • 1 granatepli
 • 3 x ástaraldin
 • Blæjuber til skrauts

Rjómi til að hafa með

 • ½ l þeyttur rjómi
 • 10 muldar makkarónukökur
 • Fræ úr einni vanillustöng (eða jafnvel sherry til hátíðarbrigða)

Hráfæðisbomba

 1. Saxið hnetur og möndlur smátt eða tætið í matvinnsluvél.
 2. Maukið döðlur og apríkósur í matvinnsluvél/blandara.
 3. Blandið allri restinni saman við döðlumauk og hnetublöndu (þetta má gera með því að hnoða saman eða setja öll hráefnin saman í matvinnsluvél og mauka). Ég þeytti banana og vanilludropa sér og blandaði síðan út í allt hitt og hnoðaði saman í höndunum í lokin.
 4. Þjappið í botninn á stórri grunnri skál eins og á myndinni eða í botninn á stóru smelluformi (um 28cm þvermál). Ef notast er við smelluform er gott að klæða botninn með bökunarpappír.
 5. Kælið á meðan ávextir eru skornir niður.
 6. Setjið vel af ávöxtum á kökuna og berið fram með þeytta makkarónurjómanum.
 7. Makkarónurjómi: þeytið rjóma, myljið makkarónukökur og náið fræjum úr vanillustönginni. Blandið því næst kökunum og fræjunum saman við þeytta rjómann með sleif.

Mæli eindregið með þessari dásemd og ekki er nú verra að geta fengið sér sneið án samviskubits!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun