Vatnsdeigsbollur með glassúr



Ég þori varla að viðurkenna það en í morgun var í fyrsta skipti sem ég baka heimatilbúnar vatnsdeigsbollur!

Ég er búin að ætla þetta ár eftir ár en tíminn einhvern veginn alltaf hlaupið frá mér. Hef alltaf endað á að kaupa tilbúnar berar bollur og setja svo eitthvað gómsætt inn í þær og glassúr ofan á. Þetta var alls ekki mikið mál og almáttugur hvað þær eru góðar svona nýbakaðar og nú held ég að þetta sé eitthvað sem verður að útbúa hér heima um komandi ár.

Vatnsdeigsbollur

  • 120 gr smjörlíki
  • 2,5 dl vatn
  • 150 gr hveiti
  • ¼ tsk salt
  • ¼ tsk lyftiduft
  • 3 lítil egg (mögulega þarf ekki að nota nema 2 ef stór)
  1. Hitið ofninn 185°C.
  2. Hitið vatn og smjörlíki saman í potti þar til smjörlíkið er bráðið.
  3. Blandið saman hveiti, lyftidufti og salti og hrærið saman við vatnsblönduna með sleif þar til kekkjalaus deigkúla myndast í pottinum. Kælið í 5-10 mínútur og hrærið aðeins í á milli.
  4. Pískið saman eggin í skál og leggið til hliðar.
  5. Flytjið deigkúluna yfir í hrærivélarskál með K-inu og bætið eggjablöndunni saman við í litlum skömmtum og skafið niður í milli. Deigið þarf að vera nægilega þykkt til að það leki ekki niður þegar á plötuna er komið (ég skildi t.a.m örlítið af eggjablöndunni eftir).
  6. Notið 2 tsk eða sprautupoka (hér notaði ég 1M sprautustút) og skiptið niður í um 25 bollur á 2 bökunarplötum íklæddum bökunarpappír.
  7. Bakið í 20-25 mínútur og alls ekki opna ofninn fyrr en að 15 mínútum liðnum í það minnsta.
  8. Kælið og útbúið glassúr og fyllingu á meðan bollurnar kólna.

Bollurnar

Hér fyrir neðan eru tvær litlar uppskriftir af glassúr þar sem mér finnst gaman að hafa smá fjölbreytileika. Ef þið kjósið að útbúa aðeins aðra tegundina þá má bara tvöfalda þá sem ykkur líst betur á.

Súkkulaðiglassúr

  • 3 dl flórsykur
  • 2 msk bökunarkakó
  • 2 tsk vanilludropar
  • 2 msk kaffi
  • 3 msk vatn

Setjið öll hráefnin saman í skál og pískið saman, smyrjið á bollurnar með skeið/litlum spaða.

Karamelluglassúr

  • 100 gr smjör
  • 100 gr púðursykur
  • 1 dl rjómi
  • 1,5 – 2 dl flórsykur
  1. Sjóðið saman smjör, púðursykur og rjóma í potti í 5-10 mínútur (leyfið að bubbla aðeins allan tímann og hrærið vel í á meðan)
  2. Takið af hellunni og hrærið flórsykrinum saman við þar til sú þykkt sem ykkur finnst hentug hefur myndast.
  3. Smyrjið á bollurnar með skeið/litlum spaða.

Glassúr

Fylling

Gott er að miða við 500 ml af þeyttum rjóma og síðan sultu, búðing eða öðru með því.

Að þessu sinni setti ég jarðaberjasultu og rjóma á þær með súkkulaðiglassúrnum og á þær með karamelluglassúrnum setti ég Royal karamellubúðing og rjóma.

Ég útbjó búðinginn skv.leiðbeiningum á pakka og kældi á meðan ég þeytti rjómann. Síðan fór um 1 tsk af búðing á hverja bolllu og svo rjómi þar á eftir.

Fylling

Við vorum sammála um að karamellubollurnar væru guðdómlegar á meðan hinar svona klassískar og hefðbundar en afar góðar engu að síður.

Tags:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun