Nusco brauðblóm



Um daginn var ég að skoða video á Youtube eins og svo oft áður og rakst á þessa snilldar hugmynd hjá Steve’s Kitchen.

Deigið er í grunninn eins og típískt snúða- bollu- eða pizzudeig, skipt niður í 4 lög og smurt með Nusco súkkulaði- og heslihnetusmjöri á milli.

Ég gat ekki setið á mér með að prófa þetta þar sem ég var ekki að kaupa það þetta gæti verið svona einfalt, sem og það svo var. Hér fyrir neðan er ég búin að íslenska uppskrift og aðferð en ég mæli einnig með því að þið horfið á upptökuna hjá Steve.

Nusco brauðblóm

  • 30 gr smjör
  • 180 ml mjólk
  • 2 msk instant ger (eða einn 15 gr þurrgersbréf)
  • 400 gr hveiti
  • 70 gr sykur
  • ½ tsk salt
  • 2 egg (aðskilin)
  • ¾ krukka Nusco með súkkulaði- og heslihnetubragði

  1. Bræðið smjörið og hitið mjólkina út í þar til ylvolgt (ef þið notið þurrger má það fara út í hér og standa í um 5 mínútur í pottinum).
  2. Blandið saman öllum þurrefnunum (hveiti, sykri, salti og instant geri) og hrærið saman.
  3. Hellið volgri mjólkurblöndunni yfir ásamt eggjarauðunum og hnoðið með króknum á hrærivélinni í um 5 mínútur.
  4. Það gæti þurft ögn meira af hveiti ef deigið er klístrað og bætið þá aðeins einni msk í einu saman við og hnoðið á milli.
  5. Berið matarolíu í skál og veltið deigkúlunni upp úr olíunni, plastið og látið hefast í um 2 klst.
  6. Skiptið deiginu í 4 hluta og fletjið hvern út eins og pizzu, nægilega stóra til að hefðbundinn kringlóttur matardiskur komist á hvolf ofan á (til að merkja stærðina).
  7. Hitið Nusco í örbylgjuofni stutta stund til að mýkja það upp og setjið 1/3 af blöndunni á milli laga í 3 skömmtum. Smyrjið fyrsta lag og leggið næsta lag ofan á, merkið m.disknum og smyrjið að nýju. Endurtakið og endið á fjórða lagi án þess að smyrja ofan á það.
  8. Leggið diskinn síðan ofan á öll 4 lögin með Nusco á milli, skerið umfram deig í burtu og þá hafið þið fullkomlega kringlótta „lagköku“.
  9. Setjið lítið glas á miðjuna og skiptið niður í 16 „sneiðar“ út frá glasinu og snúið svo upp á 2 og 2 sneiðar í sitthvora áttina á móti hvor annarri, í tvo hringi. Klípið svo endana saman til að mynda 8 „lauf“ á blómið.
  10. Setjið rakt viskastykki yfir og hefið að nýju í um 20 mínútur.
  11. Penslið vel með eggjahvítum og bakið við 180°C í um 15 mínútur eða þar til brauðið er orðið gyllt.

Súkkulaðibrauðið var dásamlegt beint úr ofninum með ískaldri mjólk.

Tags:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun