Haust á pallinum



Heitur pottur

Fyrr í haust kom yndislega Sjöfn frá sjónvarpsstöðinni Hringbraut í heimsókn á pallinn hjá okkur til að sjá hvað við erum búin að vera að brasa þarna úti. Hægt er að nálgast þáttinn á heimasíðu Hringbrautar og hér fyrir neðan fer ég síðan í ýmislegt í máli og myndum.

Kósý heitur pottur

Það er búið að taka hann elsku Hemma minn þrjú sumur í hjáverkum að láta þennan dásamlega pall verða að veruleika og því bar svo sannarlega að skála í haust!

Ostabakki

Það eru algjör forréttindi að hafa gott útisvæði og þá sérstaklega eins og sumarið var þetta árið, pant hafa það þannig….alltaf!

Ostabakki og freyðivín úti við pottinn er til dæmis lúxus á Íslandi.

kósýhorn úti

Það hafa ótrúlega margir haft samband við mig í sumar eftir að ég fór að birta myndir af pallinum á Facebook hjá mér og því ákvað ég að slá til og skella mér í þáttinn og síðan fannst mér skylda að setja inn smá upplýsingapóst hér fyrir ykkur sem viljið fylgjast með. Pallurinn er jú í raun stækkuð borðstofa, stofa og útieldhús ef svo má að orði komast.

weber kolagrill

Borðið og stólarnir í „útiborðstofunni“ eru frá Rúmfatalagernum og þykku sessurnar á bekknum (sem ég myndaði klárlega ekki nægilega vel en sjást betur á Hringbraut) eru frá ILVA og voru keyptar löngu áður en pallurinn var smíðaður. Ég sá bara strax að ég yrði að fá þessar sessur og kom einn daginn heim með fullan bíl af sessum. Hemmi minn hristi hausinn en teiknaði svo að lokum bekkinn eftir þessum fínu sessum fyrir mig. Loksins fengum við okkur síðan kolagrill frá Weber en það er alveg frábært að geta valið á milli þess að grilla á kolagrilli eða gasgrilli sé þess kostur. Bragðið einfaldlega er ekki það sama og það hentar sumum mat einfaldlega betur að grillast á kolagrilli. Ég skal síðan lofa því að gefa ykkur nokkrar kolagrillsuppskriftir á næstunni.

Ég skellti að sjálfsögðu í haustköku áður en Sjöfn kom í heimsókn og mun setja uppskriftina af þessari undurgóðu gulrótarköku inn í framhaldi af þessari færslu þar sem mig grunar hún verði aðeins of löng til að setja eitt stykki uppskrift inn í hana líka!

Ég ætla að leyfa myndunum að tala sínu máli og setja upplýsingar við hverja og eina til nánari útskýringa svo þið sem hafið ekki áhuga á sólpöllum og öllu sem þeim tengjast skulið ekki lesa lengra……..

Heitur pottur

Það er ekki úr vegi að byrja á því stærsta, heita pottinum. Það er búið að vera draumur hjá okkur lengi að fá okkur heitan pott. Eftir mikla leit og vangaveltur keyptum við Queen skel frá Heitirpottar.is

Hún er einföld í sniði og tekur marga í sæti og þar sem við erum með þrjár stelpur sem eiga fullt af vinum vildum við hafa þetta einfalt svo hægt væri að hoppa og skoppa að vild. Það var samt erfitt að velja þegar í verslunina var komið þar sem alls kyns legubekkir og lúxusheit heilluðu mikið. Okkur langaði síðan að byggja pottinn inn í pallinn í stað þess að fá okkur Plug&Play pott (sem var líka ansi freistandi) þar sem ég var með ákveðna hönnun í huga í kringum hann.

Heitir pottar

Mig langaði að geta sest upp á bekki og tröppur í kringum hann þegar sólin skín og hafa smá kósýhorn uppi á breiðari bekknum….ég vissi hins vegar ekki hvaða vinna ætti eftir að eiga sér stað til að gera þetta mögulegt! Það var hörkuvinna að koma þessu öllu heim og saman og elsku Hemmi minn eyddi allnokkrum klukkustundum í þetta bras fyrir konu sína í misskemmtilegu haustveðrinu!

Það er pínu skondið hvað maður veit lítið þegar farið er af stað með að velja pott. Maður heldur það taki „kortér“að græja þetta (að minnsta kosti óþolinmóðir eins og ég) og síðan eru margir (eins og við í upphafi) sem horfa bara á verðið á skelinni/pottinum og vita ekki af þeim kostnaði sem á eftir fylgir. Ég get hins vegar núna (hokin af reynslu, haha) sagt ykkur það að kostnaðurinn við skelina sjálfa (ef þið fáið ykkur þannig) er aðeins um 1/3 af heildarkostnaðinum. Það þarf að einangra, smíða burðargrind og tröppur og svæði í kring (kaupa efni og ráða smið/vera giftur slíkum), bora fyrir niðurfalli, ljósum, hitanema og yfirfalli í skelina sjálfa (og ekki gleyma kíttinu) og síðan auðvitað fá pípara á svæðið til þess að setja upp hitastýringu og tengja allt klabbið.

Fyrir ykkur sem nennið ekki svona óþarfa vinnu og stússi í kringum pottamál ættuð klárlega að skoða Plug&Play möguleikana þar sem það er hreinlega hægt að setja þá niður á pallinn þar sem styrkar stoðir eru undir og tengja! En ég sem er auðvitað fræg fyrir að vera alltaf með vesen gat engan vegin haft þetta svona auðvelt, að sjálfsögðu ekki!

Heitir pottar

En potturinn komst á sinn stað og almáttugur minn hvað við erum ánægð með útkomuna! Við ætluðum fyrst að sleppa því að kaupa lok en komumst síðan að því að það þarf að hafa lok öryggisins vegna og eftir á að hyggja er lok auðvitað eina vitið upp á að það sé ekki að fjúka drasl í pottinn á milli þess sem hann er notaður. Okkur langaði að nota bekkina í kringum pottinn fyrir annað en lok, til dæmis kertaluktir, blóm og kósýhorn og það er ekki í boði að hafa „pumpulok“ þegar maður byggir pottinn inn í pallinn. Þessi snilldarrör er hægt að kaupa hjá snillingunum í Heitirpottar.is og virka þannig að maður klemmir lokið saman og dregur það upp á rörin, einfaldara getur það ekki verið og lokið geymist á góðum stað og er ekki fyrir neinum. Síðan eru klemmur til að festa lokið við pallinn svo það fjúki ekki þegar lægðirnar láta á sér kræla.

Sumir vilja síðan meina það sé eitthvað ægilegt vesen að þrífa heitan pott. Það er það hins vegar alls ekki! Við keyptum töflur (ekki klór en það er líka hægt að fá þannig) sem settar eru í hólk sem flýtur í pottinum. Eftir hverja notkun (ef þið látið renna úr pottinum) leyfum við hólknum að liggja í nokkrar mínútur áður en við tæmum hann og þá sótthreinsast hann samstundis. Það er nóg að strjúka rákina sem myndast við yfirborðið á meðan maður er í pottinum annað slagið og síðan bara skola hann öðru hvoru. Við erum í það minnsta búin að láta renna ansi oft í hann síðan í haust, alltaf gert þetta og sett lokið strax á og það sér ekki á honum.

Sólpallur

Hér sjáið þið betri yfirlitsmynd af fína pottinum.

Haustblóm og aðrir aukahlutir

haustblóm

Falleg blóm eru góð fyrir sálina, hvort sem það er úti eða inni. Ég fór í Garðheima og fyllti fína pallinn af haustblómum áður en Sjöfn kom í heimsókn og almáttugur minn hvað mér finnst dásamlegt að sjá öll þessi blóm á pallinum. Flest munu lifa langt inn í veturinn á meðan önnur fara að leggjast í dvala fljótlega. Í Garðheimum keypti ég einnig blómapotta, viðardrumba og fallegu seríurnar sem þið sjáið á myndunum.

haustblóm

Litadýrð!

Viðarkubbar

Viðardrumbarnir eru svo fallegir sem punt og síðan kemur yndisleg lykt þegar kveikt er upp í arninum. Þennan arinn hér að neðan keyptum við í Costco og bekkurinn sem er á myndinni hér fyrir ofan er úr Rúmfatalagernum.

útiarinn

Krökkunum finnst síðan ÆÐI að grilla sykurpúða eða pylsur með þessum snilldar grilltöngum sem ég fékk líka í Garðheimum.

grillaðir sykurpúðar
Haustblóm

Hornsófinn er úr Signature húsgögnum og hringborðin úr ILVA.

Kósýhorn

sólpallur og seríur

Það var mér mikið í mun að útbúa „kósýhorn“ uppi á bekknum við pottinn og eftir að þeirri smíði lauk fór ég í Rúmfatalagerinn og keypti allt sem til þurfti.

Það eru jú litlu hlutirnir sem skipta jafn miklu máli og þeir stóru.

kertalukt

Kertaluktir, vasar, teppi, púðar og glerlukt setja punktinn yfir I-ið á þessu svæði.

Sólpallur

Skrautsteinar

Smáatriði eins og fallegir steinar í beðin og kringum pallinn að utanverðu þar líka að huga að. Ég fór í ansi margar verslanir til þess að finna hina einu réttu og þá fann ég hjá Steypustöðinni. Þeir eru klárlega með mesta úrvalið af fallegum skrautsteinum fyrir ykkur sem þurfið að leita af slíku.

skrautsteinar

Það er hægt að sjá sýnishorn af þeim öllum fyrir utan hjá þeim upp á Höfða og síðan eru fleiri myndir í bæklingi sem hægt er að nálgast í móttökunni.

skrautsteinar

Ég setti jarðvegsdúk undir allt sem ég keypti í Garðheimum og síðan steinana ofan á hann. Mér finnst alveg nóg að reyta arfa í bakgarðinum og hlakka mikið til þess að sleppa við það á þessu svæði.

Hversu huggulegt er þetta!

Elska þessar seríur og þetta pottasvæði!

Sorrý en ég gat ekki hætt að taka myndir!

Rafmagnshitari

Hitarinn er frá Seglagerðinni og almáttugur minn hvað hann er mikil snilld! Ég hefði ekki trúað því það kæmi svona mikill hiti frá þessu fyrr en að við sátum undir sambærilegum hitara í grísaveislu hjá Siggu&Sigga fyrr í sumar. Ég gat ekki hætt að hugsa um hann og á góðum sumar- og haustkvöldum verður þessi sannarlega notaður. Hér voru um 40 manns í pallapartý á bæjarhátíðinni í Mosfellsbæ og var næstum „rifist“ um það hverjir fengju sæti á neðra svæðinu þar sem þar var hreinlega hægt að vera á peysunni á meðan aðrir voru í úlpum.

Það kemur síðan líka hiti frá Costco-arninum en hann er þó aðallega upp á kósý stemmingu og góða lykt þegar viðurinn brennur.

Séð niður pallinn af annarri geymslunni. Við byggðum inn tvær litlar geymslur til þess að koma öllum þessum fínu útihúsgögnum inn yfir háveturinn og til þess að bíllinn komist inn í bílskúr á sama tíma. Þessar geymslur eru síðan nánast tómar yfir sumartímann. Svona er víst að búa á Íslandi!

Hér er síðan horft á pallinn af hinni geymslunni.

Fæ ekki nóg af þessu kósýhorni.

Hér kemur síðan ein mynd sem ég tók af svölunum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun