Gulrótarkaka með rjómaostakremi



Gulrótarkaka

Ég spurði á INSTAGRAM um daginn hvernig haustköku ég ætti að útbúa næst og þar komu ýmsar skemmtilegar hugmyndir. Gulrótarkaka fékk flest atkvæði svo ég fór í að útbúa eina slíka og á eflaust eftir að prófa fleiri hugmyndir frá ykkur á næstunni líka.

Gulrótarkaka

Ég útbjó þessa köku áður en sjónvarpsstöðin Hringbraut kom í heimsókn til að kíkja á haustið á pallinum okkar. Ég notaði síðan blóm af pallinum í skreytingar ásamt ferskum fíkjum til að gera hana haustlega og skemmtilega.

Haustkaka

Gulrótarkaka með rjómaostakremi

Kaka

  • 290 g hveiti
  • 2 tsk. lyftiduft
  • ½ tsk. matarsódi
  • 1 tsk. salt
  • 2 tsk. kanill
  • ½ tsk. múskat
  • ¼ tsk. negull
  • 300 ml matarolía
  • 220 g púðursykur
  • 220 g sykur
  • 4 egg
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 260 g rifnar gulrætur
  1. Hitið ofninn 175°C og gerið 3 x 15 cm kökuform tilbúin.
  2. Setjið hveiti, lyftiduft, matarsóda, salt, kanil, múskat og negul í skál og leggið til hliðar.
  3. Hrærið saman matarolíu og báðum tegundum af sykri í hrærivélarskálinni í nokkrar mínútur þar til blandað og bætið þá eggjunum saman við, einu í einu, hrærið og skafið vel niður á milli.
  4. Hellið þá vanilludropunum út í skálina og síðan þurrefnunum í nokkrum skömmtum.
  5. Að lokum fara rifnar gulrætur út í, ég notaði fínt rifjárn en ef þið viljið grófari áferð þá má rífa þær gróft.
  6. Klippið bökunarpappír í botninn á formunum og spreyið þau vel með matarolíuspreyi.
  7. Skiptið deiginu jafnt niður á milli formanna.
  8. Bakið í um 50 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á en ekki blautu deigi.
Gulrótarkaka með rjómaostakremi

Rjómaostakrem

  • 135 g smjör við stofuhita
  • 200 g rjómaostur við stofuhita
  • 750 g flórsykur
  • 4 tsk. vanilludropar
  1. Þeytið saman smjör og rjómaost þar til létt og ljóst.
  2. Bætið flórsykri saman við í nokkrum skömmtum, skafið niður á milli og hrærið vel.
  3. Að lokum fara vanilludroparnir saman við.
  4. Kreminu er smurt á milli botna og kakan hjúpuð að utan. Hafið kremhjúpinn þykkan á toppnum en skafið hann vel af á hliðunum svo það sjáist í botnana og þá fæst svokallað „naked cake“ útlit.
  5. Skreytið með ferskum blómum/haustblómum að vild.

Litlar hendur sem vilja alltaf hjálpa mömmu sinni að taka myndir er dásamlega krúttað….já svona að minnsta kosti á meðan það er ekki verið að rústa til á myndatökusvæðinu í leiðinni, hahaha!

Gulrótarkaka

Hver getur staðist svona sneið! Namm…

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun