Pizzahorn á pallinumPizzaofn á pallinum, kósý pizzahorn

Í fyrra héldum við að við værum búin að klára pallinn okkar og getið þið einmitt fengið góðar hugmyndir fyrir pallinn ykkar í þeirri færslu hér. Síðan, eins og gengur og gerist koma nýjungar á markaðinn og ég fæ auðvitað endalausar hugmyndir og ræð ekkert við sköpunargleðina og þannig var einmitt með pizzahornið krúttlega.

Ég sá auglýsta pizzaofna hjá Pizzaofnar.is og fór aðeins að stúdera slík mál. Áður en ég vissi af var ég búin að horfa á ansi mörg Youtube myndbönd í pizzagerð, komin í ýmis pizzasamfélög á Facebook, bæði hérlendis sem og erlendis, farin að kynna mér hveiti sem væri heppilegra til pizzabaksturs og ég hreinlega gat ekki náð hugmyndinni um pizzahorn úr hausnum á mér.

Það var smá hluti á pallinum þar sem ég sá að slíkt myndi rúmast og ég bar þessa hugmynd undir elsku Hemma minn. Hann er auðvitað mesti snillingurinn þegar kemur að því að láta hugmyndir mínar verða að veruleika í þessum málum og áður en ég vissi af var pizzahorn mætt á pallinn, hversu vel er ég gift!

Síðan má alls ekki gleyma smáatriðunum! Ég fór í Garðheima eins og svo oft áður og keypti haustplöntur hingað og þangað um pallinn, keypti alls konar punterí, bjórkassa, viskastykki, kryddplöntur, geggjað grátt marmarabretti og draumasvuntuna mína frá Dutchdeluxes í Húsgagnahöllinni, kveikti á kertum, hengdi upp seríu og, og, og…..

Þetta small allt heim og saman rétt áður en Hringbraut kom hingað í heimsókn á haustdögum til að vera með smá umfjöllun um pizzahornið og bókina mína, Saumaklúbbinn í þættinum Matur & heimili hjá Sjöfn Þórðardóttur.

Ég elska að hafa falleg blóm á pallinum, bara það eitt að horfa á þau út um gluggann, gleður hjartað mitt!

Það hafa margir í kringum okkur komið í heimsókn á pallinn til þess að fá hugmyndir og því finnst mér gaman að deila þeim einnig með ykkur.

Við erum hæstánægð með pizzaofninn okkar. Við erum með Ooni Karu þar sem við vildum hafa möguleika á því að prófa að eldbaka pizzur á kolum/með viðarpallettum þegar við værum í stuði fyrir slíkt. Gaskúturinn er hins vegar í hillunni undir borðinu og við söguðum lítið gat til þess að ná slöngunni upp í gegnum borðið og tengja við ofninn. Ofninn setjum við síðan inn í skúr yfir vetrarmánuðina en á sumrin dugar að setja á hann yfirbreiðslu.

Pizzurnar verða án gríns eins og frá pizzastað og það er mikil stemming í kringum baksturinn. Stelpurnar vilja fá að snúa sinni pizzu svo ég er svona hægt og rólega að kenna þeim réttu handtökin. Hér finnið þið uppskrift að botnunum sem hafa reynst okkur best en það sem er mikilvægt þegar verið er að baka pizzu í pizzaofni er að passa að hún festist aldrei við spaðann. Því þarf að vinna þetta jafnt og þétt og hafa vel af hveiti undir hverri pizzu því annars gæti hún átt það til að festast við spaðann/borðið og þá lendið þið í vandræðum.

Húsið okkar er málað hvítt og grátt að utan og við vorum lengi að velja lit á timbrið. Okkur langaði að hafa hlýlegan lit og brjóta aðeins upp gráa og hvíta litinn. Við gengum um allt hverfið, rúntuðum um önnur hverfi og stúderuðum liti í góðan tíma áður en við ákváðum okkur. Okkur langaði í ljósbrúnan, ekki of rauðan og ekki of dökkan og að endingu völdum við lit sem vinafólk okkar, Lillý og Roby, hér í götunni er með hjá sér sem heitir CEDER og er tréolía frá Flugger.

Liturinn á pizzaborðinu sjálfu hefur á þessari mynd aðeins verið málaður 1 x með tréolíunni og á því eftir að ná sama mjúka lit og veggirnir fyrir ofan þegar við berum á hann aftur.

Pizzahornið var útbúið haustið 2020 og sumarið 2022 létum við sérsmíða ylplast hjá Fást til að fá nokkurs konar þak yfir þetta litla pizzaeldhús. Það kemur þvílíkt vel út og með ylplastinu kemst birtan í gegn og þarna undir rignir ekki lengur, nema kannski þegar íslensk veðrátta bíður upp á lárétta rigningu, hahaha!

Útieldhús með pizzaofni

Nú er því hægt að baka pizzur hvernig sem viðrar og allt fína punteríið getur verið þarna úti án þess að það fari illa.

þak á útieldhús

Það er allt annað að standa þarna undir og baka pizzur!

útieldhús og pizzaofn

Hér sést ylplastið enn betur.

Hér sjáið þið smá video fyrir og eftir þessar breytingar. Ég á bara eftir að hengja elsku fallegu seríurnar aftur þarna undir!

Útieldhús með þaki

Núna þarf ég bara að muna eftir því að vökva blómin og kryddjurtirnar sem eru þarna undir.

Útieldhús hugmyndir

Elska falleg sumarblóm svo ég má til með að láta þessa fylgja fyrir sumarið 2022!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun