Elsta dóttir okkar hún Harpa Karin útskrifaðist á dögunum frá Menntaskólanum við Sund og að sjálfsögðu var slegið upp veislu í tilefni dagsins. Ég eeeeeeeeeeelska að skipuleggja og halda veislur og það er klárlega að ýmsu að huga til að allt gangi upp. Við vorum með opið hús hér heima og veðurguðirnir voru heldur betur með okkur í liði þennan daginn en það var dásamlegt sumarveður og hægt að hafa opið út á pall sem stækkaði klárlega húsið.

Hingað var mætt förðunardama eldsnemma morguns og næst lá leiðin í formlega útskriftarathöfn í Háskólabíó. Eftir hana fór ég með Hörpu í stúdentsmyndatöku hjá Bent vini okkar en síðast myndaði hann hana fyrir ferminguna (sem mér fannst hafa verið fyrir kortéri!) og á meðan fóru Hemmi og pabbi um allan bæ að sækja veitingar, blöðrur, ísmola og alls konar! Síðan sameinuðumst við fjölskyldan heima og kláruðum að setja upp veisluborðið og skreyta áður en gestirnir mættu síðdegis.
Reels myndband frá Instagram má sjá hér að ofan og síðan eru myndbönd og myndir einnig í Highlights!

Við keyptum blöðruboga, blöðrur, diska, servíettur og alls konar fleira hjá Balún í Faxafeni en síðan vorum við einnig með mikið af afskornum blómum, bæði um allt húsið og yfir alla eyjuna, sitthvoru megin við eftirréttaturninn. Það er ótrúlega einfalt að útbúa blöðruboga og hann gerir ótrúlega mikið fyrir rýmið að mínu mati, klárlega nýja uppáhaldið mitt!

Það er gaman að segja frá því að þegar ég vaknaði næsta morgun voru allar blöðrur enn í fullkomnu standi svo ég auglýsti þær + bogann gefins á Instagramminu mínu og þær fengu nýtt líf í fermingarveislu síðar um daginn sem var alveg frábært!

Veitingarnar voru að mestu aðkeyptar þó svo að ég hafi séð nánast um alla eftirréttina sjálf og hér fyrir neðan langar mig að fara aðeins yfir þær með ykkur til að gefa hugmyndir og ráð.
Veitingar í stúdentsveislu
Við pöntuðum megnið af veitingunum hjá Nomy veisluþjónustu en þar höfum við áður pantað veitingar og alltaf verið í skýjunum með útkomuna. Það er eiginlega magnað hvernig þeir ná sérstöku bragði og áferð á hvern einasta rétt svo bragðlaukarnir eru á endalausu ferðalagi! Það voru um 60 fullorðnir og 10 börn í veislunni og við pöntuðum 10 bita veislu fyrir 40 manns og blönduðum saman við aðrar veitingar. Það var smá afgangur en margir gestir sátu frameftir kvöldi og síðan áttum við nokkra góða bita eftir líka daginn eftir svo það er ekki annað hægt að segja en að veitingarnar hafi verið vel nýttar.

Hér er á ferðinni humartaco með sellerí- og sítruskremi og almáttugur þessi biti var guðdómlegur!

Svepparistin er einn af mínum uppáhalds réttum frá Nomy.

Sesam kramarhús með bleikjutartar, dilli, avókadókremi og granatepli! Almáttugur þetta var sko ekki bara fallegt heldur líka alveg brjálæðislega gott!

Mini hamborgarar slá alltaf í gegn og þessir ostborgarar voru klárlega á næsta leveli hvað slíka varðar, namm!

Nautalund „tataki style“ er rugl góður réttur og hér fyrir neðan sjáið þið fleiri girnilega smárétti eins og lamb & bernaise, tómatbrúskettur, grísaklemmu, kjúklingaleggi í satay og franska rist, allt svooooo gott!

Þegar góða veislu skal halda er mikilvægt að höfða til allra aldurshópa og bjóða upp á fjölbreyttar veitingar. Harpa Karin elskar að fara á Mandi og er kjúklinga shawarma í uppáhaldi. Við ákváðum því að panta veislubakka frá þeim og hafa má „indverskt horn“ á veisluborðinu. Við pöntuðum 50 stk af kjúklinga shawarma, 50 stk af Arias Maria með kjúkling og hummus með flögum.

Við röðuðum öllu af plastbökkunum og yfir í fallegri ílát og þetta sló rækilega í gegn, bæði hjá ungum sem öldnum.

Síðan útbjuggum við tvo stóra ostabakka með alls kyns gúmelaði sem fyllt var á eftir þörfum.
Ostabakki
- Mexíkó kryddostur (enda í uppáhaldi hjá stúdínunni)
- Hvítlauks kryddostur
- Auður ostur
- Dala hringur
- Feykir ostur
- Gullostur
- Niðurskornir Óðalsostar
- Hnetur
- Sulta
- Pestó
- Brauð
- Kex
- Jarðarber
- Vínber
- Hindber
- Salamiblóm
- Hráskinka
- Pipardöðlur
- Nammi
- Súkkulaðihúðaðar möndlur

Eitt kökuskilti fór á stúdentskökuna sjálfa og annað á ostabakkann því það má svo sannarlega merkja fleira en kökur með fallegum skiltum. Þessi skilti pantaði ég hjá Hlutprent eins og svo oft áður. Ég keypti síðan tvö eins Riverdale trébretti í Húsgagnahöllinni því mig langaði að hafa þau svört og eins á sitthvorum staðnum á boðinu.

Elín Heiða systir stúdínunnar sá alfarið um að græja veitingar fyrir börnin sem komu í veisluna enda er hún í fínni æfingu eftir að hafa útbúið bókina Börnin baka með mér í fyrra. Það sem var í boði voru mini pizzur (keyptar frosnar í Hagkaup), hrískökur, snakk og ídýfa, nammi, ávextir og djús. Það er svo mikilvægt að hafa eitthvað svona fyrir krakka því oft gleymist að þau borða ekki endilega fínar snittur og mat sem við fullorðna fólkið kunnum að meta. Síðan voru nú fullorðnir líka alveg að fá sér veitingar af þessu borði og öfugt sem er að sjálfsögðu í lagi.

Kakan á toppnum var súkkulaðikaka með súkkulaði smjörkremi en hjúpuð að utan með Betty Vanilla frosting og skreytt með kökuskilti og ferskum blómum. Það er bóndarósatími og almáttugur það eru svo falleg blóm og því fóru slíkar á kökuna og í vasa hingað og þangað ásamt öðrum blómum.

Ég keypti svo fallega blómavasa í Fjarðarkaup sem ég raðaði yfir alla eyjuna og fyllti með blómum.

Hér fyrir neðan kemur síðan listi yfir það sem var á eftirréttaturninum sjálfum fyrir utan kökuna. Samtals voru þetta yfir 300 einingar af alls konar blandi í poka og það var alveg slatti afgangs, ég kann mér bara ekki alveg hóf þegar það kemur að eftirréttum, hahahaha!
Eftirréttaturn í veislu
- Bollakökur (litlar og stórar) (í heildina um 50 stk)
- Súkkulaðimús í litlum plastskálum (50 stk)
- Kökupinnar (40 stk)
- Döðlugott (70 stk)
- Kransakökubitar (40 stk)
- Makkarónur (60 stk)

Ég útbjó sjálf allt á eftirréttaturninum fyrir utan makkarónurnar. Það var hann dásamlegi Gulli Arnar sem sá um að gera þær fyrir mig enda er hann meistari í slíkum og þær voru hver annarri ljúffengari!

Það má síðan alls ekki gleyma drykkjunum! Það er gaman að geta skálað á svona degi svo við vorum með freyðivín, hvítvín, rauðvín og bjór í boði fyrir utan auðvitað gos, sódavatn og kaffi. Við fengum ísmola í frauðplastkössum hjá Ísmanninum og það var snilld að geta mokað þeim ofan í fallegar fötur og bala til að bjóða upp á ískalda drykki á meðan á opnu húsi stóð. Það er síðan gaman að taka það fram að næsta dag voru þeir sem eftir voru enn alveg frosnir í kassanum úti á palli svo endingin er bara ansi góð!

Ég uppfærði aðeins drykkjarföturnar á heimilinu fyrir þessa veislu en hinar gömlu voru orðnar ansi lúnar, enda hef ég lánað þær víða! Við keyptum báðar þessar tegundir af bölum/fötum í BAST og eru þeir alveg vatnsheldir og ótrúlega flottir! Vorum með nokkra svarta matta bala með höldum fyrir bjór og gos og tvo rustik kæla fyrir stærri vínflöskur.

Stúdínan fékk síðan sérmerkt glas fyrir sig til þess að skála í og varðveita minninguna um þennan stóra dag.

Það er sjaldan sem við munum eftir því að taka myndir af okkur öllum saman í svona veislum en það hafðist þetta skiptið svo þessi þarf helst að fara í ramma upp á vegg sko því það eru allir að horfa í myndavélina, undur og stórmerki get ég sagt ykkur, haha!

Hér er síðan hluti af vinkonum hennar Hörpu en þessar hafa verið vinkonur aaaaaaansi lengi, ýmist frá því í Víkurskóla síðan við bjuggum í Grafarvoginum eða Varmárskóla hér í Mosó og nú útskrifuðust þær allar saman úr MS.

Ef þið viljið hins vegar tryggja það að sitja uppi með skemmtilegar myndir úr veislum þá er snilld að leigja myndakassa og bakgrunn og hvetja alla gesti til að leika sér aðeins þar. Það gerðum við svo sannarlega og hvort sem það voru blessuð börnin eða langamma, þá voru allir plataðir inn í bílskúr þar sem búið var að setja upp „stúdíó“! Við vorum með baug og bakgrunn frá Instamyndum og mikið sem það var gaman að fara yfir allar myndirnar að veislu lokinni!

Það sem við erum rík af yndislegum vinum og fjölskyldu!

Standarnir undir veitingarnar gera ótrúlega mikið! Ferkantaða plexistandinn með stúdentskökunni á toppnum er hægt að leigja hér á síðunni ásamt fleiri útfærslum af slíkum. Hina svörtu með smáréttunum fékk ég lánaða hjá Þórunni vinkonu en hún er einmitt að leigja þá líka á síðunni sinni Mbutik.
Umfjöllun um veisluna í FRÉTTABLAÐINU!
Vonandi hefur þessi færsla gefið ykkur góðar hugmyndir fyrir ykkar veislu og takk fyrir að lesa alla leið hingað niður!