
LOKSINS kemur að því að ég kynni formlega með stolti bókarbarn númer tvö hjá mér þetta árið! Veislubókin mín kom út fyrir rúmri viku eftir langa bið og almáttugur minn hvað ég er ánægð með hana.

Ef þú ert á leiðinni að halda veislu eða þekkir einhvern sem er að undirbúa slíka mæli ég svo hjartanlega með þessari handbók. Hér tók ég saman allt sem þarf að vita um veislur á einn stað!
Bókinni er skipt niður í sex mismunandi veislukafla með mismunandi þema, gátlistum og uppskriftum. Veislukaflarnir sem um ræðir eru; brúðkaup, útskrift, ferming, skírn/nafngjafarathöfn, barnaafmæli og fullorðinsafmæli.
Í hverjum kafla eru gátlistar til að aðstoða fólk við að skipuleggja mismunandi veislur, tillögur að framsetningu, skreytingum og fullt af girnilegum uppskriftum. Brúðkaupskaflinn er líklega sá viðamesti, enda í mörg horn að líta þegar kemur að slíkum undirbúningi.

Ég veit ekki hversu oft ég hef aðstoðað vini og vandamenn með skipulag á sínum veislum og ég fæ einnig ótal fyrirspurnir um veisluhald hér á blogginu. Mér fannst því tilvalið að ná saman allri minni þekkingu og meira til í eina bók til að létta undir með fólki í veisluskipulagi. Ég fékk fagmenn til að lesa yfir ákveðna hluta fyrir mig og vandaði mig mikið við skrifin til þess að bókin gæti höfðað til sem flestra.

Ferlið var skemmtilegt og áhugaverð reynsla að skrifa bók frá A-Ö í fyrsta sinn. Þetta var auðvitað líka mjög krefjandi og eldhúsið mitt var meira og minna á hvolfi þá mánuði sem ég var að vinna í bókinni. Við tók síðan myndvinnsla og textasmíði þó ég hafi nú reyndar alveg unnið þetta allt í bland.
Ég tók allar myndirnar sjálf í bókinni og fékk kennslu á nýtt myndvinnsluforrit hjá félaga mínum sem var ómetanlegt. Það er auðvitað reynsla sem ég kem til með að búa að áfram og get nýtt mér hér á blogginu og hver veit nema ég skrifi einhvern tímann aftur bók, ég hef nefnilega heyrt þetta geti verið ávanabindandi!

Ég vona innilega þessi bók muni koma til með að gagnast öllum þeim sem skemmtilegar og bragðgóðar veislur vilja halda!
Kær kveðja, Berglind
Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM