
Elsta dóttir mín útskrifaðist í vikunni úr Varmárskóla í Mosfellsbæ. Mér finnst þetta allt mjög undarlegt þar sem ég man svo vel þegar ég var sjálf að byrja í menntaskóla og fannst ég svo fullorðin og sjálfstæð og það getur ekki verið að litla barnið mitt sé komið þangað allt í einu!

Það var að sjálfsögðu tilefni til að baka fyrir útskriftarhlaðborðið. Ég vígði nýja kökudiskinn minn sem er mögulega nýji uppáhalds diskurinn minn með meiru hann er svo undurfallegur! Ég á þá alveg nokkra en ég er auðvitað algjör „sökker“ fyrir fallegum hlutum í eldhúsið eins og hefur komið fram hér áður svo það er alltaf hægt að bæta á sig kökudiskum. Það er bara spurning hvað maðurinn minn segir við þessu því hann þarf alltaf að setja upp fleiri skápa og hillur fyrir mig til að geyma allt þetta fínerí, hahaha!

Þessi fallegi kökudiskur fæst í Húsgagnahöllinni og hann er ekki aðeins kökudiskur heldur fallegasta hillustáss, hann mun í það minnsta fá að vera fyrir allra augum hér á skenknum mínum þar sem sumt getur einfaldlega ekki farið inn í skáp. Diskurinn sjálfur er veglegur marmaradiskur á fallegum tréfæti. Ég nota einnig svona fallega kökudiska oft sem ostabakka eða til að bera fram aðrar veitingar líkt og smárétti eða annað á veisluborði því það er svo fallegt að lyfta veitingunum aðeins á hærra plan.

Ég gerði 1,5 x þessa súkkulaðitertuuppskrift fyrir kökuna (bæði af kremi og köku) nema ég litaði ekki kremið sem fór utan á og það er nóg að gera einfalda uppskrift af því þar sem það á ekki að þekja kökuna að fullu. Síðan notaði ég 3 x 20 cm form fyrir neðri hæðina og 3 x 15 cm form fyrir efri hæðina og setti pappaspjald og stoðir á milli. Til að sjá hvernig það er gert getið þið skoðað Highlights á INSTAGRAM hjá mér.

Lúpínan umlykur allt í Mosfellsbænum þessa dagana svo mér fannst tilvalið að kíkja hér upp í móann bakvið hús og tína þessi fallegu fjólubláu blóm bæði í vasa og fyrir köku. Ég valdi litlar lúpínur fyrir kökuna og nokkrar sem voru ekki byrjaðar að springa út og fannst mér það koma mjög vel út.

Hversu fallegur getur einn kökudiskur eiginlega verið…..

…..og hverjum hefði dottið í hug að elsku besta lúpinan myndi gera kökuna svona fallega!
Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM